Segjast hafa ræktað heila í tilraunastofu

Örheilinn sem vísindamenn við Ríkisháskólann í Ohio segjast hafa ræktað …
Örheilinn sem vísindamenn við Ríkisháskólann í Ohio segjast hafa ræktað í petrídiski, mynd/Ríkisháskólinn í Ohio

Vísindamenn við Ríkisháskólann í Ohio halda því fram að þeir hafi ræktað smækkaða útgáfu af heila í petrídiski sem hefur alla hluta heilans og 99% þeirra gena sem eru til staðar í fimm vikna gömlum fóstrum. Þeir telja aðferðina geta nýst til að rannsaka sjúkdóma á borð við einhverfu og Parkinson.

Engar ritrýndar greinar hafa enn birst um aðferð þeirra Rene Anand, prófessors við lyfjafræðideild Ríkisháskólans í Ohio í Bandaríkjunum, og Susan McKay, samstarfskonu hans, en Anand segir við Washington Post að ástæðan sé sú að enn eigi eftir að samþykkja umsókn um einkaleyfi á aðferðinni.

Þessi örheili er sagður á stærð við strokleður á blýanti og segja þau Anand og McKay að hann sé nákvæmasta eftirlíking af mannsheila sem ræktuð hefur verið á rannsóknarstofu.

„Þetta er meðfærilegt líkan sem hægt er að hanna til að bera erfðafræðilegan breytileika sem valda öllum þessum sjúkdómum og það gefur okkur ótrúlegan aðgang að hlutum sem við höfum aldrei haft áður. Við getum prófað lyf, við getum spurt spurninga, við getum fylgt þróuninni eftir á hverju stigi hennar og við getum gert það allt í diski,“ segir Anand.

Hafi þau Anand og McKay eitthvað fyrir sér gætu vísindamenn tekið húðfrumur úr fólki sem þjáist af Parkinson-sjúkdómnum, unnið stofnfrumur úr þeim og ræktað síðan örheila til að rannsaka orsakir sjúkdómsins.

Aðrir vísindamenn eru varir um sig að tjá sig um rannsóknirnar enda eru gögn um þær ekki aðgengilegar enn sem komið er.

„Þegar einhver kemur fram með ótrúlegar fullyrðingar af þessu tagi verður maður að vera varkár þar til að þau eru tilbúin að leggja fram gögnin sín,“ segir Zameel Cader, taugafræðingur við John Radcliffe-sjúkrahúsið í Oxford við The Guardian.

Frétt Washington Post af rannsóknunum

Frétt The Guardian

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert