Hnattræn hlýnun af völdum losunar manna á gróðurhúsalofttegundum hefur að líkindum gert þurrkinn í Kaliforníu 15-20% verri en ella, gróflega áætlað. Þetta er niðurstaða vísindamanna við Columbia-háskóla sem segja að þurrkar framtíðarinnar eigi nær áreiðanlega eftir að verða verri vegna hlýnunarinnar.
Mikill þurrkur hefur herjað á Kaliforníu frá árinu 2012 og hefur verið ríkinu dýrkeyptur. Í skýrslu sérfræðinga hjá Kaliforníuháskóla sem birtist fyrr í þessari viku var því spáð að þurrkurinn muni kosta hagkerfið þar 2,7 milljarða dollara á þessu ári. Hann kemur verst niður á landbúnaði. Bændur hafa þurft að hvíla rúmlega 200.000 hektara lands og verðmætar plöntur eins og möndlutré og vínviður hefur drepist. Áætlað er að þeir verji 590 milljónum dollara aukalega til þess að dæla upp vatni úr síminnkandi grunnvatnsborði Kaliforníu í ár.
Loftslagsvísindamenn við Columbia-háskóla segja þurrkurinn sé aðallega af völdum náttúrulega breytileika í loftslaginu en að líkurnar á að hann og aðrir þurrkar verði alvarlegur fari vaxandi vegna hnattrænnar hlýnunar. Líkurnar á því að Kaliforníu lendi í eins alvarlegum þurrki og nú hafi um það bil tvöfaldast á undanfarinni öld.
„Þetta væri nokkuð alvarlegur þurrkur alveg sama hvað. Hnattræn hlýnun hefur hins vegar áreiðanlega gert hann verri,“ segir A. Park Williams, aðalhöfundur rannsóknarinnar við New York Times.
Hlýrra loftslag hafi gert það að verkum að jarðvegurinn þornar hraðar og vatn í lónum og ám gufar hraðar upp en annars. Áhrifin sem hlýnunin hafi haft á uppþornun jarðvegsins nemi um 15-20%.
Haldi mannkynið áfram á sömu braut í losun gróðurhúsalofttegunda má búast við því að loftslag í Kaliforníu og annars staðar á jörðinni haldi áfram að hlýna. Sú hlýnun gæti breytt jafnvel hóflegri þurrkatíð í þurrka af stærðargráðu sem ekki hafa þekkst áður.
„Allt vatnskerfið sem við höfum í Kaliforníu var hannað fyrir gamla loftslagið. Þegar aðeins er litið til hitastigsbreytingarinnar þá erum við í nýju loftslagi. Vatnskerfið var ekki byggt fyrir loftslagið sem við höfum núna,“ segir Noah S. Diffenbaugh, loftslagsvísindamaður við Stanford-háskóla og ritstjóri Geophysical Research Letters, tímaritsins sem birti greinina.