Plata sjálfkeyrandi bíla með leysi

Sjálfkeyrandi bíll Google með LIDAR-skanna á þakinu.
Sjálfkeyrandi bíll Google með LIDAR-skanna á þakinu. AFP

Hakkarar geta auðveldlega gabbað skynjara sjálfkeyrandi bíla og látið þá halda að hindranir séu í vegi þeirra sem þeir þurfa að forðast eða stöðva fyrir. Öryggissérfræðingur sem sýndi fram á þennan galla segir að hann ætti að vekja framleiðendur sjálfkeyrandi bíla upp af værum blundi.

Sjálfkeyrandi bílar nota svonefnt LIDAR-kerfi, sem styðst sjálft við leysigeisla, til þess að nema umhverfið og koma auga á mögulegar hindranir á veginum. Með því að senda kerfinu fölsk gögn er hægt að rugla það í ríminu. Google, Lexus, Mercedes, Audi og fleiri bílaframleiðendur nota LIDAR í frumgerðum sjálfkeyrandi bíla sinna.

„Ef sjálfkeyrandi bíll fær lélegar upplýsingar tekur hann lélegar ákvarðanir. Ég get hermt eftir þúsundum fyrirbæra og í raun gert DoS-árás á skynjunarkerfið þannig að það getur ekki fylgt eftir raunverulegum hlutum, “ segir Jonathan Petit frá tölvuöryggisfyrirtækinu Security Innovation.

Með einföldum búnaði gat Petit truflað skynjara sjálfkeyrandi bíls úr allt að hundrað metra fjarlægð. 

Frétt The Guardian af truflun sjálfkeyrandi bílanna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert