Kaup fjölmiðlarisans Fox á hinu þekkta náttúrutímariti National Geographic og samnefndum sjónvarpsstöðvum hefur vakið áhyggjur aðdáenda miðlanna um hvaða stefnu þeir muni taka í kjölfarið. Rupert Murdoch, eigandi Fox, er þekktur afneitari loftslagsvísinda og óttast sumir að þess muni nú sjást merki í National Geographic.
Tilkynnt var um kaup 21st Century Fox á fjölmiðlahluta National Geographic í gær. National Geographic Society, vísindafélagið sem stofnað var árið 1888 og átt fjölmiðlana, mun áfram eiga um fjórðungshlut í nýju félagi um fjölmiðlana. Fox og National Geographic Society munu skipta með sér stjórn nýja félagsins.
Í kjölfarið hafa margir lýst yfir áhyggjum sínum og óbeit á því að afneitari vísinda á borð við Murdoch hafi nú eignast eins virt vísindarit og tímarit National Geographic. Fréttastöðin Fox News hefur jafnframt verið leiðandi afl í að breiða út rangar upplýsingar um loftslagsmál.
Murdoch hefur í gegnum tíðina lýst því yfir að menn beri aðeins takmarkaða ábyrgð á þeim loftslagsbreytingum sem eru að verða á jörðinni, ef þá einhverja. Það er þvert á niðurstöðu vísindasamfélagsins að hnattræn hlýnun sé fyrst og fremst af völdum losunar manna á gróðurhúsalofttegunda með brennslu á jarðefnaeldsneyti eins og kolum, olíu og gasi. Þá hefur Murdoch sakað „öfgagræningja“ um að stöðva hagvöxt.
Sonur hans, James Murdoch, framkvæmdastjóri Fox, virðist þó ekki sama sinnis og faðir hans. Hann hefur til að mynda lýst yfir stuðningi við endurnýjanlega orkugjafa og sagt að öll loftslagslíkön bendi til þess að menn séu á leið til versta vegar með loftslag jarðarinnar. Hann sagði New York Times að hann hafi engin áform um breytingar á stefnu tímaritsins eftir að kaupin voru um garð gengin.
Fyrri frétt mbl.is: Fox kaupir National Geographic