Concorde í loftið 2019?

Concorde-þota á flugi árið 2000.
Concorde-þota á flugi árið 2000. AFP

Nægilegs fjár hefur verið safnað til að kaupa Concorde-þotu með það að markmiði að koma henni aftur í loftið fyrir árið 2019, segir hópur breskra áhugamanna um vélina

Hópurinn kallar sig Club Concorde og í honum eru fyrrverandi flugstjórar og aðrir áhugamenn um vélina. Segjast þeir nú hafa yfir að ráða 120 milljónum punda, um 23 milljörðum króna til að gera flug þotunnar aftur að veruleika. Hópurinn ráðgerir einnig að hafa aðra Concorde-þotu til sýningar í miðborg Lundúna.

Concorde, sem getur flogið á tvöföldum hljóðhraða, var síðast flogið árið 2003.

Nú er hópurinn í viðræðum um kaup á einni slíkri vél sem er nú til sýningar á Le Bourget flugvellinum í París, segir í frétt BBC um málið. Gangi það eftir ætlar hópurinn að gera þotuna flughæfa og nota hana svo á flugsýningunum, í einkaflugi og við sérstök tækifæri.

Formaður hópsins, Paul James, segist snortinn af þeim viðbrögðum sem hugmyndin hefur fengið. Hann segir þau sína að fólki sé annt um Concorde og vilji sjá þær í háloftunum á ný. Hann vonast til þess að vélin verði komin í gagnið fyrir árið 2019 en það ár verða 50 ár liðin frá fyrsta flugi Concorde. 

Aðeins 20 Concorde-þotur voru smíðaðar. Þær voru teknar úr umferð árið 2003 m.a. vegna niðursveiflu í fluggeiranum og í kjölfar slyss árið 2000. Concorde-þota Air France hrapaði þann 25. júlí það ár á leið sinni frá Charles de Gaulle flugvelli til New York. Allir sem voru um borð, 100 farþegar og níu manna áhöfn, létust.

25. júlí árið 2000 hrapaði Concorde-þota í nágrenni Charles-de-Gaulle-flugvallar í …
25. júlí árið 2000 hrapaði Concorde-þota í nágrenni Charles-de-Gaulle-flugvallar í París. Allir sem voru um borð fórust. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert