Fyrirtækið sem framleiddi málglaða vélmennið Pepper sér ástæðu til að minna viðskiptavini sína á að þeir megi ekki stunda kynlíf með vélmenninu.
Farsímarisinn SoftBank, sem selur vélmennið í Japan, lætur eftirfarandi klausu í notendaskilmálana: „Eigandi vélmennisins má ekki eiga mök við vélmennið eða sýna af sér aðra ósiðsamlega háttsemi.“
Hið orðheppna Pepper, sem getur að sögn framleiðenda lesið tilfinningar fólks, kostar 1.600 Bandaríkjadali, um það bil 200.000 krónur. Þrátt fyrir ærinn tilkostnað er ekki hægt að nota þetta 120 sentímetra háa vélmenni utandyra eða til að valda fólki skaða.
Aðrar greinar notendaskilmálanna banna að vélmennið sé notað til að senda ruslpóst en kynlífsbannið er það sem hefur vakið mesta undrun og hafa samfélagsmiðlar í Japan logað. Þrátt fyrir að SoftBank vilji að Pepper hegði sér eins og siðsamlegt lítið vélmenni er ekkert sem bannar líkamleg samskipti við vélmennið, bara að nota það í „ósiðsamlegum tilgangi.“
Fyrirtækið segir að sóðaleg hegðun gagnvart vélmenninu gæti haft í för með sér refsiaðgerðir, þó svo að ekki sé ljóst hverjar þær kynnu að vera eða hvernig nokkur ætti að komast að því að þær hefðu átt sér stað. Talsmaður fyrirtækisins sagði engu að síður að það væri alveg stranglega bannað að breyta rödd vélmennisins þannig að hún væri meira kynæsandi.
1.000 vélmenni fóru í sölu á Japansmarkaði og seldust upp í netsölu á einni mínútu.