Viðvarandi hitabylgja í höfum jarðar, bæði af völdum náttúrulega veðurfyrirbæra og hnattrænnar hlýnunar af völdum manna, veldur nú fölnun kóralrifja á heimsvísu sem getur þýtt dauða stórs hluta þeirra. Fölnunarskeiðið sem vísindamenn segja nú standa yfir er aðeins það þriðja í sögu mælinga.
Vísindamenn bandarísku Haf- og loftslagsstofnunarinnar (NOAA) höfðu áður varað við því að þúsundir ferkílómetra kórala gætu horfið varanlega vegna hlýnunar sjávar á næstu tveimur árum. Kóralar eru afar viðkvæmir fyrir hitastigsbreytingum en þeir fölna ef þeir lenda í hlýrri sjó en þeir eiga að venjast í lengri tíma en nokkra daga.
Fölnunarskeiðið sem nú stendur yfir hófst í norðanverðu Kyrrahafi sumarið 2014 en breiddist síðan út suður með Kyrrahafi og í Indlandshaf á þessu ári. NOAA áætlar að allt að 95% kóralrifja við Bandaríkin hafi orðið fyrir aðstæðum sem valda fölnun fyrir árslok. Spálíkön gera ráð fyrir að þessar hlýju aðstæður í sjónum vari langt fram á næsta ár og þær geti komið illa niður á kórölum í Karíbahafi og við Havaí næst.
Þetta er í þriðja skipti sem vísindamenn hafa orðið varir við umfangsmikla fölnun kórala á heimsvísu. Fyrst gerðist það árið 1998 í kjölfar óvenju sterks El niño-viðburðar það ár og svo aftur árið 2010. Í frétt breska ríkisútvarpsins BBC kemur fram að því sé spáð að fölnunarviðburðurinn nú verði sá versti sem sögur fara af.
Talið er að hitapollur í Kyrrahafi og að óvenjusterkur El niño valdi fölnuninni nú en áhrif þessara náttúrulega fyrirbæra séu ýkt af völdum manngerðra loftslagsbreytinga. Auk hlýnunarinnar hefur súrnun sjávar af völdum koltvísýringsútblásturs manna og mengun af ýmsu tagi skaðleg áhrif á kóralana.
Þeir geta jafnað sig ef hlýnunin er skammvinn þó að endurreisnin geti tekið langan tíma. Ef hlýnunin stendur hins vegar yfir í lengri tíma er líklegt að kóralarnir fölni og deyi. Þó að kórarif þeki aðeins örlítinn hluta hafsbotns jarðar eru þau gríðarlega mikilvægt búsvæði fjölda dýrategunda og líffræðilegs fjölbreytileika sem menn reiða sig jafnframt á.