Hætta á hruni fæðukeðja sjávar

Um 5% kóralrifa heims hafa dáið af orsökum tengdum loftslagsbreytingum.
Um 5% kóralrifa heims hafa dáið af orsökum tengdum loftslagsbreytingum. AFP

Að óbreyttu er hætta á að hrun verði í fæðukeðjum sjávar fyrir árið 2050, vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, ofveiði og staðbundinnar mengunar. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem byggist á 632 tilraunum á hafsvæðum heims.

Tilraunirnar sýndu fram á áhrif loftslagsbreytinga á fjölbreytni og fjölda sjávarlífvera, en niðurstöður rannsóknarinnar, sem birtar voru í Proceedings of the National Academy of Sciences, benda til þess að sjávardýr hafi takmarkaða möguleika til að aðlagast hlýnun sjávar og aukinni súrnun, og þá virðist sem aðeins fáar tegundir komist undan neikvæðum áhrifum vegna upptöku hafsins á koltvísýringi.

Aukin súrnun sjávar mun torvelda lífverum á borð við kóraldýr, ostrur og kræklinga að mynda skeljar, en hlýnun hefur þegar haft áhrif á hegðun og gengi fisktegunda.

Samkvæmt niðurstöðum greininga mun svif aukast í höfum jarðar samfara aukinni hlýnun, en sú þróun mun ekki skila sér upp fæðukeðjuna. Ivan Nagelkerken, prófessor við Adelaide University, segir fæðu smárra jurtaæta á borð við fiska, sjávarsnigla og rækjur hafa aukist, en hlýnun hafi orðið til þess að hraða efnaskiptum þessara lífvera og samfara því hafi dregið úr vexti þeirra. Þetta hafi aftur áhrif á möguleika kjötæta til fæðuöflunar.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert