Hundaæði í fyrsta skipti í 200 ár

Leðurblaka í dýragarði í Bristol í Bretlandi.
Leðurblaka í dýragarði í Bristol í Bretlandi. Af Wikipedia

Norsk heilbrigðisyfirvöld hafa staðfest að leðurblaka sem fannst dauð í Valdres var smituð af hundaæði en það er í fyrsta skipti í tæp 200 ár sem sjúkdómurinn, sem er banvænn, greinist á meginlandi Noregs.

Karen Johanne Baalsrud, yfirdýralæknir í Noregi, staðfestir þetta í samtali við norska ríkisútvarpið í gær. Hún varar fólk við því að taka að sér leðurblökur sem eru veikar. „Við viljum ekki vekja ótta en viljum samt upplýsa almenning. Við biðjum fólk um að muna að leðurblökur eru rándýr sem á að láta í friði.“

Hún segir að hver sá sem er bitinn af leðurblöku eigi að þvo sárið vel með sápu til þess að minnka hættuna á sýkingu.

Frétt NRK

Hundaæði kom upp á Svalbarða fyrir nokkrum árum en þá var kona bitin af ref sem var með hundaæði.

Samkvæmt Vísindavefnum er hundaæði bráð heilabólga sem öll spendýr geta smitast af. Sjúkdómurinn sem orsakast af veiru, lýsir sér með krampaflogum, einkum í vöðvum sem stjórna öndun og kyngingu. Það einkennilega er að kramparnir koma fram eða versna mikið við tilraunir til að drekka vatn, við að sjá vatn, heyra vatnshljóð eða heyra talað um vatn. Af þessum ástæðum hefur sjúkdómurinn stundum verið kallaður vatnsfælni.

Annað sjúkdómseinkenni er myndun á miklu og seigfljótandi munnvatni. Nafnið hundaæði stafar af því að sjúkdómurinn leggst oft á hunda og gerir þá hrædda, órólega, slefandi og árásargjarna. Hægt er að bólusetja við hundaæði en þeir sem veikjast af sjúkdómnum deyja flestir eftir um viku veikindi með miklum þjáningum.

Hundaæði er landlægt í stórum hluta heimsins. Þau svæði sem eru laus við þessa plágu eru Suðurskautslandið, Ástralía, flestar eyjar í Kyrrahafi, Japan, Taívan, Bretlandseyjar, Skandinavíuskaginn, Færeyjar og Ísland. Öll þessi lönd reyna eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að sjúkdómurinn berist til þeirra en helstu hætturnar eru flutningur gælu- og húsdýra milli landa auk ferða villtra dýra sem erfitt er að hamla.

Á eyjum eins og Íslandi er tiltölulega auðvelt að koma í veg fyrir hundaæði með ströngu eftirliti með innflutningi lifandi dýra en slíkt eftirlit er einnig nauðsynlegt vegna annarra sjúkdóma eins og gin- og klaufaveiki.

Ekki er vitað með vissu hve margir menn smitast árlega af þessum hræðilega sjúkdómi. Einstaka tilfelli kemur upp í Evrópu og Norður-Ameríku en í Rómönsku Ameríku, Asíu og Afríku er hundaæði verulegt vandamál.

Sjúkdómurinn smitast venjulega með biti sjúks dýrs en veiran getur einnig komist í gegnum slímhúð í munni og augum ef til dæmis munnvatn úr sjúku dýri berst þangað. Veiran kemst í taugar á smitstað og berst síðan eftir þeim til miðtaugakerfisins. Oftast er hún 3-10 vikur á þeirri leið, en stöku sinnum tekur það þó mun lengri tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka