Sérkennilegt fyrirbæri við fjarlæga stjörnu sem vísindamenn telja sig hafa komið auga á með Kepler-sjónaukanum er að öllum líkindum náttúruleg bygging í sólkerfinu sem enn er ekki skilin, að mati Sævars Helga Bragasonar, formanns Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Tilgátum hefur verið fleygt fram um að um risavaxnar byggingar geimvera sé að ræða.
Erlendir fjölmiðlar hafa sumir sagt frá því að stjörnufræðingar hafi mögulega fundið risavaxnar byggingar geimvera á braut um stjörnuna KIC 8462852 sem er í 1.481 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Svaninum. Þær hugmyndir byggjast á sérstæðu fyrirbæri sem Kepler-geimsjónaukinn sem leitar að fjarreikistjörnum kom auga á.
Til að skilja hvað vísindamennirnir fundu við stjörnuna þarf að skilja hvernig menn finna fjarreikistjörnur á braut um fjarlægar sólir. Gríðarlegar fjarlægðir skilja jörðina frá þessum stjörnum og þær eru margfalt bjartari en reikistjörnur sem ganga á braut um þær. Því er engin leið að sjá fjarreikistjörnur með beinum hætti frá jörðinni. Þær eru ekki nógu bjartar til að sjást frá jörðinni og drukkna þar að auki í bjarmanum frá móðurstjörnunum.
Þess í stað starir Kepler-sjónaukinn á stóran hluta himinsins með þúsundum stjarna í lengri tíma. Í kjölfarið fer fjöldi stjörnufræðinga með aðstoð sjálfvirkra forrita yfir gögnin frá sjónaukanum og leitar að smávægilegum breytingum á birtunni sem stjörnurnar gefa frá sér. Minnki birtustigið örlítið, sérstaklega ef það gerist með reglubundnum hætti, er það til marks um að reikistjarna gangi á milli stjörnunnar og jarðarinnar.
Mikilvægt er að hafa í huga að þó að með þessum hætti sé hægt að greina tilvist fjarreikistjarna og áætla stærð þeirra og umferðartíma um móðurstjörnu sína þá tekur Kepler engar myndir af þeim, enda er það ómögulegt. Upplýsingarnar um reikistjörnurnar eru einfaldlega á formi ljóslínurita sem sýna hversu mikið og hversu lengi ljósið frá stjörnunum dofnaði þegar reikistjörnurnar gengu fyrir þær.
Við KIC 8462852 nam Kepler óvenjulegar breytingar á birtustiginu yfir fjögurra ára tímabil. Yfirleitt skyggja fjarreikistjörnur aðeins á stjörnur í nokkrar klukkustundir og upp í nokkra daga, allt eftir sporbraut þeirra. Athuganir leiddu hins vegar í ljós að birtan dofnaði lítillega í tvígang árið 2009 en svo mun meira í meira en viku tveimur árum síðar. Loks dofnaði ljósið aftur lítillega nokkrum sinnum árið 2013.
Þetta mynstur bendir til þess að fyrirbæri af óreglulegri stærð gangi á braut um stjörnuna. Stjarnan er ekki ung þannig að vísindamenn telja að efnisskífa, sem reikistjörnur, smástirni og halastjörnu myndast úr, geti ekki verið orsökin. Hvað sem fyrirbærið sé, þurfi það að hafa myndast nýlega, annars hefði stjarnan fangað það með þyngdarkrafti sínu og gleypt það.
„Við höfum aldrei séð neitt í líkingu við þessa stjörnu. Hún var virkilega furðuleg. Við héldum að gögnin væru röng eða hreyfingar hafi átt sér stað á geimsjónaukanum en allt reyndist í lagi,“ segir Tabetha Boyajian, rannsóknarnemi við Yale-háskóla sem hefur skrifað grein um mögulegar orsakir fyrirbærisins.
Líklegustu skýringuna telja menn að hópur halastjarna hafi hætt sér of nærri stjörnunni sem hafi rifið þær í sundur með þyngdarkrafti sínum. Leifar þeirra séu það sem Kepler-sjónaukinn greinir nú á braut um stjörnuna.
Vísindamenn sem tengjast SETI-stofnuninni, sem leitar að vitibornu lífi utan jarðarinnar, hafa hins vegar sett fram þá framandlegu tilgátu að fyrirbærið gæti verið klasi risavaxinna mannvirkja sem geimverur hafi komið fyrir á braut um stjörnuna.
„Ég var heillaður af því hversu klikkað þetta lítur út fyrir að vera. Geimverur ættu alltaf að vera síðasta tilgátan sem þú íhugar en þetta leit út eins og eitthvað sem þú byggist við að samfélög geimvera myndu búa til,“ segir Jason Wright, stjörnufræðingur við Penn-ríkisháskólann, sem talar fyrir þessari kenningu.
Sævar Helgi segir langlíklegast að um náttúrulega byggingu sé að ræða sem menn hafi ekki náð að útskýra ennþá. Þetta sé heldur ekki í fyrsta skipti sem undarleg fyrirbæri hafi komið í ljós þegar menn hafi leitað að fjarreikistjörnum.
Þannig tóku menn eftir skrýtnum birtubreytingum á stjörnunni Epsilon Aurigae sem birtust á 27 ára fresti. Vísindamenn klóruðu sér lengi í kollinum yfir því en með samstilltu átaki atvinnu- og áhugastjörnufræðinga tókst að sýna fram á eðli sólkerfis stjörnunnar. Hún reyndist vera svonefnt tvístirni.
„Þetta voru tvær stjörnur á braut um hvor aðra. Önnur þeirra var með dimma rykskífu og þegar hún gekk fyrir hina dofnaði birtan sem kom fram á sérkennilegan hátt í mælingunum. Það er dæmi um eitthvað sem leit út fyrir að vera skrýtið í upphafi en reyndist svo mjög náttúrulegt að lokum,“ segir Sævar Helgi.
Hann segir að sig og líklega flesta aðra gruni að eitthvað svipað sé uppi á tengingum nú. Sé þetta hins vegar merki um geimverur væri það stórkostlegt. Hann telur það þó ekki líklegt.
„Ég myndi hallast að því að þessi skýring væri neðst á blaði þangað til við erum búin að ganga úr skugga um að allt annað væri útilokað. Ég hugsa að þeir hugsi nú það sama. Þetta er mjög ólíkleg útskýring en vissulega sú mest spennandi,“ segir Sævar Helgi.