Ný rannsókn hefur verið birt í Nature þar sem kemur fram að ráðgefandi skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna ætlaðri stjórnmálamönnum hefur fallið mikið í læsileika síðustu tuttugu ár og er læsileiki síðustu skýrslunnar talinn áhyggjuefni. Textinn sé nú orðinn svo torskilinn að hann hamli gegn nýtileika skýrslunnar.
Rannsóknin beitti Flesch læsileikaprófinu til þess að greina síðustu fimm útgáfur skýrslunnar, sem kemur út á fjögurra ára fresti. Síðasta skýrslan fær ákaflega lága einkunn en hún er talin mun ólæsilegri heldur en t.d. nokkrar lykilritgerðir í eðlisfræði eftir Albert Einstein og Stephen Hawking, í fagi sem seint verður þekkt fyrir læsileika fræðirita sinna.
Fréttaumfjöllun hefur haldið svipuðum læsileika öll árin en notar talsvert tilfinningaríkara mál til þess að lýsa innihaldi hennar en skýrslurnar og hefur orðið svartsýnni með tímanum.
Stofnunin sem gefur skýrsluna út hefur þegar brugðist við og hefur auglýst eftir vísindagreinahöfundum og grafíkhönnuðum til þess að bæta læsileikann.
Ekki vilja allir meina að flækjustig skýrslunnar sé verulegt vandamál í sjálfu sér. Stjórnmálamönnunum sem henni sé ætlað að upplýsa séu sjálfir viðriðnir skrif hennar í gegnum aðildina að SÞ en aðildarþjóðirnar senda fulltrúa sem þurfa að samþykkja orðalag og innihald skýrslunnar áður en hún kemur út.
Robert Stavins vill meina að einmitt þar liggi hundurinn grafinn. Hann vann að ritun kafla í síðustu skýrslu stofnunarinnar og lýsir ferlinu við að samþykkja textann sem gríðarlegri skapraun. Fulltrúar ríkja hafi heimtað ýmiss konar breytingar, stórar og smáar, á texta skýrslunnar á pólitískum forsendum burtséð frá vísindalegu gildi þeirra. Hann segir það ótækt að fulltrúar þjóða skipti sér af vísindalegum málefnum sem snúa að deilum sem þjóðirnar eiga í og neiti öllum texta sem ekki henti hagsmunum þeirra.