Svona brennir þú fleiri hitaeiningum

Gakktu með bakpoka. Gakktu hlykkjótt.
Gakktu með bakpoka. Gakktu hlykkjótt. mbl.is/Golli

Til er einföld aðferð til að brenna fleiri hitaeiningum á göngu: Breyttu gönguhraða þínum.

Að breyta gönguhraða sínum hraðar efnaskiptum líkamans um 20% miðað við að halda stöðugum hraða á göngu, samkvæmt nýrri rannsókn sem gerð var við háskólann í Ohio. Hraðari efnaskipti þýðir að fleiri hitaeiningum er brennt en ella. 

Þegar fólk er á göngu úti við breytir það oftast gönguhraða sínum reglulega. Í raun ganga fæstir ávallt á nákvæmlega sama hraðanum í slíkum aðstæðum. 

Í frétt um rannsóknina á vef breska blaðsins Independent er haft eftir einum höfundi hennar, verkfræðingnum Manoj Srinivasan, að mikilvægt sé að mæla efnaskiptahraða í tengslum við breytilegan gönguhraða því að fólk eyði ekki öllu lífi sínu á göngubrettum. 

Niðurstaða rannsóknarinnar er m.a. sú að hefðbundnar mælingar á hitaeiningabrennslu á göngu gefi ekki rétta mynd af raunverulegri brennslu. Slíkar aðferðir vanmeti slíka brennslu.  

Þar sem fólk sem gengur úti, t.d. í náttúrunni eða um borgina sína, breytir yfirleitt ósjálfrátt gönguhraða sínum, gagnast niðurstöður rannsóknarinnar fyrst og fremst þeim sem nota göngubretti mikið sem hluta af sinni líkamsrækt. 

Til að bæta svo enn við brennsluna hefur Srinivasan prófessor eftirfarandi ráð: „Gerðu bara furðulega hluti. Gakktu með bakpoka. Settu lóð um fætur þína. Gakktu lengi. Gakktu hlykkjótt í stað þess að ganga beint.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert