Aukning í snjókomu á Suðurskautslandinu sem hófst fyrir um 10.000 árum er nægileg til að vega upp á móti bráðnun jökla þar vegna hnattrænnar hlýnunar enn sem komið er, samkvæmt nýjum rannsóknum NASA. Þær niðurstöður eru í andstöðu við við fyrri rannsóknir. Engu að síður er talið að bráðnunin beri úrkomuna ofurliði á næstu áratugum.
Fyrri rannsóknir, þar á meðal samantektarskýrsla lofslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC) frá árinu 2013, hafa komist að þeirri niðurstöðu að Suðurskautslandið sé að tapa landís. Samkvæmt nýrri rannsókn vísindamanna NASA, sem byggir á gervihnattagögnum sem ná til ársins 2008, bættust hins vegar um 112 milljarðar tonna af ís við Suðurskautslandið á ári frá 1992 til 2001. Hægt hefur á þeirri nettóaukningu niður í 82 milljarða tonna á ári frá 2003 til 2008.
Jay Swally, aðalhöfundur rannsóknarinnar og jöklafræðingur hjá Goddard-geimrannsóknastöð NASA, segir að henni beri saman við fyrri athuganir hvað varðar úrkomuaukningu á Suðurskautslandsskaganum og hlusta Vestur-Suðurskautslandsins. Munurinn komi hins vegar fram á Austur-Suðurskautslandinu og innri hlutum Vestur-Suðurskautslandsins.
Þrátt fyrir það telur Swally að þess sé ekki langt að bíða þar til sú þynning sem er að verða á ísnum vegna hnattrænnar hlýnunar vegi þyngra en snjórinn sem er að bætast við á Suðurskautslandinu, að því er kemur fram í frétt á vef NASA.
„Ef tapið á Suðurskautslandsskaganum og hlutum Vestur-Suðurskautslandsins heldur áfram að aukast á sama hraða og það hefur aukist síðustu tvo áratugi mun tapið ná langtímaviðbótinni á Austur-Suðurskautslandinu á tuttugu til þrjátíu árum. Ég held að það verði ekki nægileg aukning í snjókomu til þess að vega upp á móti því tapi,“ segir Swally.
Vísindamennirnir greindu breytingar á yfirborðshæð íshellunnar með radar- og leysimælingum. Swally segir að ólíkt fyrri rannsóknum sem hafi gert ráð fyrir því að hæðaraukning á Austur-Suðurskautslandinu hafi átt sér stað vegna aukinnar úrkomu á undanförnum árum þá hafi rannsókn hans sýnt að sú aukning hafi hafist fyrir þúsundum ára. Veðurathuganir frá árinu 1979 sýni þannig að dregið hafi úr úrkomunni þar um ellefu milljarða tonna á ári á því tímabili sem gögnin ná yfir.
Austur-Suðurskautslandið hafi bætt við sig um 200 milljörðum tonna af ís ári frá 1992 til 2008 á sama tíma og strandsvæði Vestur-Suðurskautslandsins og skaginn hafi tapað um 65 milljörðum tonna á ári.
„Góðu fréttirnar eru að Suðurskautslandið er ekki að stuðla að hækkun yfirboðs sjávar þessa stundina heldur lækkar það um 0,23 millímetra á ári. Þetta eru hins vegar líka slæmar fréttir. Ef þeir 0,27 millímetrar í hækkun yfirborðs sjávar sem skýrsla IPCC eignar Suðurskautslandinu kemur í raun ekki frá Suðurskautslandinu þá hlýtur eitthvað að stuðla að yfirborðshækkun sjávar sem sem enn hefur ekki verið gert grein fyrir,“ segir Swally.