Grænmetisolíur krabbameinsvaldandi

Vísindamenn hafa sýnt fram á að grænmetisolíur, sem eru hitaðar …
Vísindamenn hafa sýnt fram á að grænmetisolíur, sem eru hitaðar upp, séu heilsuspillandi og hvetja fólk til að steikja mat upp úr smjöri eða ólívuolíu. mbl.is/Sverrir

Með því að steikja mat í grænmetisolíu losna eitruð efni úr læðingi sem geta leitt til krabbameins og annarra sjúkdóma. Þetta kemur fram í rannsóknum vísindamanna sem ráðleggja fólki að steikja mat upp úr ólívuolíu, kókosolíu, smjöri eða jafnvel svínafeiti.

Á bak við þessa niðurstöðu liggur fjöldi rannsókna sem kollvarpa þeirri kenningu að olíur sem eru ríkar af ómettuðum fitusýrum, eins og maísolía og sólblómaolía, séu betri fyrir heilsuna en mettuðu fitusýrurnar í dýraafurðum. Vísindamenn komust að því að með því að hita upp grænmetisolíur þá gefa þær frá sér efnið aldehýð í miklu magni en efnið er talið orsaka hjartasjúkdóma, krabbamein og heilabilun. Þetta kemur fram á vef The Telegraph.

Martin Grootveld, prófessor í efna- og meinafræði, segir að rannsóknir hafi sýnt fram á að fiskur og franskar steikt upp úr grænmetisolíu innihaldi um 100 til 200 sinnum meira af eitraða efninu aldehýð en ráðlagður dagskammtur, samkvæmt stuðlum frá Alþjóðlegu heilsusamtökunum. Rannsóknir sýndu að mun minna magn af aldehýði myndaðist þegar maturinn var steiktur upp úr smjöri, ólívuolíu eða svínafeiti.

Þá styðja rannsóknir prófessora við Oxford háskóla þessa niðurstöðu en þær segja að fitusýrurnar í grænmetisolíum leiði til heilsufarsvandamála. John Stein, prófessor í taugavísindum við Oxford, segir að vegna notkunar á maís- og sólblómaolíu sé mannsheilinn að taka breytingum sem séu jafn alvarlegar og gróðurhúsaáhrifin. Hann segir að með því að borða of mikið af þessum olíum minnki magn ómega 3 í líkamanum sem geti leitt til geðsjúkdóma og lesblindu.

Grootveld, sem starfar við De Montfort-háskólann í Leicester, segir að tilraunir hans hafi leitt í ljós að smjör sé í raun og veru mjög gott til steikingar andstætt því sem yfirvöld hafa haldið fram. Í viðtali við The Telegraph segir hann að þegar grænmetisolíur eru hitaðar upp fara þær í gegnum flókin efnaskipti sem mynda hættuleg efnasambönd. Hann bendir þó á að þegar olíurnar eru algjörlega hreinar og óunnar séu þær ekki heilspillandi en með því að hita þær upp verða þær hættulegar heilsunni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert