Loftslag að nálgast nýjan veruleika

Michel Jarraud, forstöðumaður Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, kynnir niðurstöður mælinga á gróðurhúsalofttegundum fyrir …
Michel Jarraud, forstöðumaður Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, kynnir niðurstöður mælinga á gróðurhúsalofttegundum fyrir árið í fyrra. AFP

Mannkynið hefur komið því til leiðar að styrkur gróðurhúsalofttegundarinnar koltvísýrings í lofthjúpi jarðar er um 143% meiri nú en fyrir iðnbyltingu. Forstöðumaður Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar segir loftslag jarðarinnar á leið inn í nýjan „varanlegan veruleika“ þegar það fer yfir sögulegan þröskuld á næsta ári.

Stofnunin greindi frá mælingum sínum á styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu fyrir árið 2014 í dag. Enn eitt metið var slegið en styrkur koltvísýrings reyndist 397,7 hlutar af milljón (ppm). Það er 143% meira en árið 1750, áður en menn byrjuðu að dæla miklu magni af gróðurhúsalofttegundinni út í lofthjúpinn með bruna á jarðefnaeldsneyti.

Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna áætla að líklegt sé að meðaltalsstyrkur koltvísýrings fari yfir 400ppm á næsta ári. Styrkur gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti jarðar hefur ekki verið svo mikilli í milljónir ára. Vísindamenn telja að til að forðast hættulega hlýnun jarðar þurfi styrkurinn að vera nær 350ppm. 

„Við sjáum ekki koldíoxíð. Það er ósýnileg ógn en mjög raunveruleg. Það þýðir hærra hitastig jarðar, fleiri öfgakennd veðurfyrirbrigði eins og hitabylgjur og þurrkar, bráðandi ís, hækkandi yfirborð sjávar og súrnun sjávar. Þetta á sér stað núna og við erum að færast inn í ókannað svæði á ógnvekjandi hraða,“ segir Michel Jarraud, forstöðumaður Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar.

Styrkur koldíoxíðs jókst um 1,9ppm á milli áranna 2013 og 204. Það er aðeins minna en meðaltal síðasta áratugar sem var 2,06ppm en hærra en 10. áratugar síðustu aldar þegar aukningin nam 1,5ppm að meðaltali á ári.

Alþjóðaveðurfræðistofnunin varar við að áframhaldandi hlýnun jarðar leiði til vítahrings þegar kemur að vatnsgufu en hún er einnig gróðurhúsalofttegund. Hærra hitastig þýði að meiri vatnsgufa sé í lofthjúpnum sem stuðlar að enn meiri hlýnun. Jarraud segir að nauðsynlegt sé að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Frétt The Guardian af styrk koltvísýrings í lofthjúpi jarðar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert