Tungl Mars að sundrast

Tunglið Fóbos.
Tunglið Fóbos. NASA/JPL-Caltech/Arizona-háskóli

Stórar og langar sprungur einkenna yfirborð Fóbosar, tungls reikistjörnunnar Mars. Vísindamenn telja að þær séu fyrstu merkin um að tunglið muni á endanum rifna í sundur vegna flóðkrafta frá Mars og leifarnar falla niður á yfirborð reikistjörnunnar.

Fóbos er stærra tunglið af tveimur sem ganga um Mars. Hann svífur jafnframt nær yfirborðinu en nokkuð annað tungl í sólkerfinu gegnum um reikistjörnu sína, í aðeins um 6.000 kílómetra fjarlægð, að því er segir í frétt á Stjörnufræðivefnum. Til samanburðar skilja um 380.000 kílómetrar jörðina og tunglið að.

Líkt og tunglið togar í höf jarðar og veldur flóði og fjöru togar Mars í Fóbos. Vegna nálægðarinnar togar Mars hins vegar svo fast að braut Fóbosar lækkar um tvo metra á öld. Stjörnufræðingar hafa reiknað út að Fóbos muni tvístrast og leifarnar falla niður til yfirborðsins eftir 30-50 milljónir ára.

Fyrri kenningar höfðu gert ráð fyrir að sprungurnar á yfirborði Fóbosar væru tilkomnar vegna áreksturs sem myndaði stærsta gíginn á tunglinu. Á fundi reikistjörnufræðideildar bandaríska stjarnvísindafélagsins á dögunum voru niðurstöður nýs líkans hins vegar kynntar sem styðja þá tilgátu að sprungurnar séu sprungusveimar sem verða til þegar flóðkraftar sundra Fóbosi hægt og rólega.

Nánar má lesa um tilgátuna á Stjörnufræðivefnum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert