Stefnir í samkomulag á morgun

AFP

Allt stefnir í að samkomulag náist á loftlagsráðstefnunni í París á morgun, degi síðar en áætlað var. Samkomulagið felur í sér að þjóðir heims sameinist um að hafa hemil á hlýnun jarðar.

Sendinefndir á ráðstefnunni voru að störfum í alla nótt, aðra nóttina í röð, við að leggja lokahönd á sögulegt samkomulag í loftslagsmálum. En í ellefu daga hafa alþjóðlegar sendinefndir setið á rökstólum í höfuðborg Frakklands, á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna COP21, í þeirri von að ná saman um hvernig draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda. 

AFP

„Samkomulagið verður kynnt á laugardagsmorgun til innleiðingar um miðjan dag,“ herma heimildir AFP fréttastofunnar innan úr frönsku sendinefndinni. „Þetta er á réttri leið,“ segir utanríkisráðherra Frakklands, Laurent Fabius, sem stýrir viðræðunum.

Samkomulagið mun taka gildi í ársbyrjun 2020 og drögin sem kynnt voru í gærkvöldi eru 27 blaðsíður að lengd og mun styttri en fyrri útgáfur. Þar kemur meðal annars fram að gæta verði þess að hitastig hækki ekki um meira en 2 gráður og stefnt sé að því að það hækki ekki meira en um 1,5 gráðu á Celsíus.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert