Danir snúa aftur í raunheima

AFP

Sífellt fleiri Danir eru búnir að fá sig fullsadda af samfélagsmiðlum eins og Facebook og Snapchat, samkvæmt nýrri rannsókn sem danska ríkisútvarpið fjallar um.

Samkvæmt rannsókninni fara 20% inn á samfélagsmiðla einu sinni í mánuði eða sjaldnar. Af þeim hafa 70% tekið meðvitaða ákvörðun um að forðast það að kíkja inn á miðla eins og Facebook, Snapchat, Instagram og aðra miðla og öpp af svipuðum toga. Meginástæðan er fólk telur sig eyða of miklum tíma á netinu og missa um leið af raunverulegu lífi.

Lisbeth Klastrup, sem vinnur við rannsóknir á samfélagsmiðlum við Kaupmannahafnarháskóla, segir í samtali við DR að það megi skipta þeim sem ekki nota samfélagsmiðla í tvo hópa. Eldra fólk ig þá sem líta á samfélagsmiðla sem tímasóun. Síðar nefndi hópurinn hættir á slíkum miðlum í mótmælaskyni.

En að yfirgefa samfélagsmiðla er ekki auðveld ákvörðun og þýðir oft að viðkomandi þarf að finna aðrar leiðir til þess að eiga samskipti við aðra. Klastrup segir að staðan sé sú að samfélagsmiðlar standi jafnfætis við ljósvakamiðla og dagblöð og þú hættir á að missa tengslin við samfélagið að einhverju leyti ef þú ert ekki virkur á samfélagsmiðlum.

Sérfræðingur sem DR ræddi við segir að margir séu búnir að fá sig fullsadda af fólki sem eru stöðugt að skoða snjallsíma sína í stað þess að vera viðstaddir í tíma og rúmi. Fólk sé einfaldlega búið að fá nóg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert