Hinn fjögurra ára gamli Callum er með tólf alvarleg fæðuofnæmi, þar af sex sem geta valdið dauða. Meðal þess sem hann má ekki koma nálægt eru hnetur, mjólk, egg og tómatar. Í viðtali við Sky News segir móðir hans, Nathalie Dyson-Coope, oft hafa verið erfitt að eiga við heimilislækna drengsins og fá rétta greiningu á einkennum hans. Hún gagnrýnir þekkingu breskra heilbrigðisstarfsmanna á ofnæmi og slæleg viðbrögð við alvarlegum tilfellum. „Við tókum hann fram úr á morgnana og útlitið var eins og morð hefði verið framið í barnarúminu,“ segir Dyson-Coope. „Þegar við fórum til læknis var okkur síðan sagt að þetta væri bara barna-exem, eða „smá pest“ sem hann myndi komast yfir,“ segir hún ennfremur.
Ofnæmi hefur aukist gríðarlega undanfarin ár og samkvæmt frétt Sky News er talið að allt að helmingur ungra barna á Vesturlöndum glími við ofnæmi af einhverju tagi. Þá segir ofnæmissérfræðingurinn George Du Toit að í dag greinist ofnæmistilfelli oft ekki nógu snemma vegna vanþekkingar heilbrigðisstarfsmanna og verði afleiðingarnar því alvarlegri en ella. Hann bendir á að tilfelli hnetuofnæmis hafi t.a.m. tvöfaldast í Bretlandi, Norður-Ameríku og Ástralíu á undanförnum árum.
„Nú þjáist u.þ.b. einn af hverjum þrjátíu af alvarlegu hnetuofnæmi. Það er einn í hverri skólastofu,“ segir Du Toit. Hann segir mikilvægt að auka þekkingu á ofnæmi meðal þeirra sem veita grunnheilbrigðisþjónustu á Vesturlöndum til þess að hægt sé að bregðast við tilfellum strax og þau koma upp.