Reykingar hafa áhrif á gæludýr

Það hefur lengi verið vitað að óbeinar reykingar hafi skaðleg áhrif á heilsu fólks. Nú hafa vísindamenn við háskólann í Glasgow greint frá því að óbeinar reykingar geti haft áhrif á heilsufar katta og hunda.

Samkvæmt nýrri rannsókn er líklegra að gæludýr sem búa á heimili þar sem er reykt eigi við heilsufarsvandamál eins og krabbamein og þyngdaraukningu að stríða. 

„Gæludýraeigendur hugsa oft ekki út í áhrifin sem reykingar gætu haft á dýrin þeirra,“ sagði Clare Knottenbelt, prófessor við háskólann í samtali við AFP. 

„Okkar rannsókn gefur til kynna að óbeinar reykingar hafi beint áhrif á gæludýr. Þær auka líkur á frumuskaða, þyngdaraukningu eftir geldingu og hafa verið tengdar nokkrar gerðir af krabbameini.“

Í rannsókninni kemur fram að reykingar hafi meiri áhrif á ketti en hunda sem ráða við meira magn reyks.

„Það getur verið vegna þess hversu mikið kettir þvo sér. Það getur aukið magn reyks sem dýrið innbyrðir,“ sagði Knottenbelt.

Samkvæmt rannsókninni hefur það lítil áhrif á heilsu kattar sem býr á heimili þar sem er reykt hvort að hann hafi aðgang að útiveru. Kettir á heimilum þar sem reykt var sjaldnar en tíu sinnum á dag voru með minna nikótín magn í sér en samt töluvert meira en kettir frá heimilum þar sem ekki var reykt.

Einnig voru eistu geldra hunda rannsökuð og kom í ljós að sérstakt gen, sem bendir til frumuskaða, er algengara hjá hundum á heimilum þar sem er reykt. Þar að auki bendir rannsóknin til þess að hundar sem búa með reykingarfólki þyngist frekar eftir að þeir eru geldir.

Gert er ráð fyrir því að niðurstöður rannsóknarinnar verði birtar á næsta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert