Uppgötvunin „magnað afrek“

Mælibúnaður LIGO var tekinn í gagnið árið 2000.
Mælibúnaður LIGO var tekinn í gagnið árið 2000. AFP

LIGO rannsóknastofnunin í Bandaríkjunum tilkynnti í fyrradag að hún hefði greint þyngdarbylgjur frá samruna tveggja svarthola fyrir 1,3 milljörðum ára. Uppgötvuninni er líkt við það að uppgötva nýja leið til þess að sjá alheiminn, líkt og framþróun í rafsegul- og röntgenbylgjum.

Kári Helgason, doktor í stjarneðlisfræði við Max Planck-stofnunina í Þýskalandi, horfði á blaðamannafundinn, sem fór fram í Washington, í beinni útsendingu á netinu. „Búnaðurinn sem greindi þyngdarbylgjuna samanstendur af tveimur löngum örmum sem leysigeisli fer í gegnum, en leysigeislinn mælir lengd

armanna á mjög nákvæman hátt. Það sem gerist þegar þyngdarbylgja fer í gegnum jörðina, er að armarnir smækka og stækka á einkennandi hátt, t.a.m. þegar tvö svarthol renna saman. Þannig má segja að uppgötvunin sýni fram á að allar fjarlægðir á jörðinni styttast og sveiflast á víxl. Svartholin hrista upp í rúminu,“ segir Kári, spenntur yfir uppgötvuninni.

Hann segir uppgötvunina merkilega af ýmsum ástæðum. „Þetta er fyrsta beina mælingin á þyngdarbylgjum, sem er magnað afrek og þeir sem stóðu að uppgötvuninni eiga eftir að fá Nóbelsverðlaunin fyrir þetta á þessu eða næsta ári,“ segir Kári og leggur áherslu á hve uppgötvunin sé stórt skref fram á við fyrir stjörnufræðina.

Þá telur hann uppgötvunina endanlega sanna tilvist svarthola. „Svarthol eru fyrirbæri sem við vitum að eru til, það efast enginn vísindamaður um tilvist svarthola, en við höfum aldrei fengið bein sönnunargögn fyrir tilvist þeirra. Þetta var líka ekki eitthvert svarthol, heldur voru þetta tvö svarthol sem hringsóluðu í kringum hvort annað og runnu saman í eitt. Við fengum beina útsendingu frá náttúrunni, sem er kynngimagnað.“

Þá segir Kári að uppgötvunin styrki afstæðiskenningu Alberts Einstein sem sett var fram árið 1916. „Með þessu er almenna afstæðiskenning Einsteins, eins og hún birtist fyrir 100 árum, nákvæmlega rétt upp á hár,“ segir Kári.

Nýr gluggi að alheiminum

Að lokum talar Kári um hvernig hin nýja tækni opni nýjan glugga til að skoða heiminn í gegnum. „Mest allt sem við vitum um alheiminn fáum við með ljósi. Það er alltaf einhver sjónauki sem nemur ljóseindir frá einhverjum vetrarbrautum og fyrirbærum og við túlkum ljóseindirnar. Þyngdarbylgjur eru hins vegar ekki ljóseindir, þannig er þetta ný aðferð fyrir alheiminn til að tala við okkur. Með þyngdarbylgjumælum fáum við ný augu til að skyggnast inn í alheiminn.

Þegar ný leið til að horfa á alheiminn hefur uppgötvast hefur það alltaf leitt til þess að við fáum nýja sýn á alheiminn, eins og t.d. þegar við byrjuðum að nota röntgenbylgjur og innrautt ljós til þess að skoða heiminn. Það áhugaverða er að það er ekki endilega það sem við bjuggumst við að sjá sem er merkilegt, heldur það sem við bjuggumst ekki við að sjá. Vegna þess munu næstu ár verða rosalega spennandi. Við eigum örugglega eftir að sjá eitthvað óvænt sem við höfðum ekki spáð fyrir um,“ segir Kári.

Þyngdaraflsbylgjur greindar í fyrsta sinn

Kári Helgason.
Kári Helgason.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert