Eru loftslagsbreytingar að verða af mannavöldum eða er um allsherjar samsæri að ræða? Skiptir koltvísýringsútblástur nokkru máli í hnattrænu samhengi? Þetta er meðal þeirra spurninga sem Halldór Björnsson, haf- og veðurfræðingur, mun svara í erindi sínu í Hörpu.
Halldór, sem er doktor í haf- og veðurfræði og hópstjóri veðurs- og loftslagsbreytinga hjá Veðurstofunni, heldur erindi[ á fundi Landsbankans um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum í Hörpu fimmtudaginn 25. febrúar. Þar mun hann rekja nokkur helstu atriði sem haldið hefur verið fram sem mótrökum við almennt viðurkenndum kenningum um hlýnun jarðar af mannavöldum.
Lífseigustu og safaríkustu rökin gegn almennt viðurkenndum kenningum um hlýnun jarðar af mannavöldum rekur hann í stórum dráttum svo:
„Það er fullt til af öðrum mýtum sem eru þess eðlis að maður nennir ekki að svara þeim en þessar eru þannig að það er hægt að útskýra eitthvað með þeim,“ segir Halldór í samtali við mbl.is. „Það er hægt að rekja sögu þeirra, hvaðan þær koma og hvers vegna þær eru rangar. Margt af þessu eru hugmyndir sem ekki er sjálfsagt að séu rangar fyrir fram. Sumar eru þannig að menn héldu lengi að þetta væri rétt en síðar áttuðu þeir sig á því að svo er ekki.“
Mbl.is fékk Halldór til þess að fara lauslega yfir tvær mýturnar, annars vegar að koltvísýringur í andrúmslofti valdi ekki hlýnun og hins vegar að aukning hans eigi sér náttúrulegar orsakir.
„Hugmyndir um það að koltvísýringur valdi ekki hlýnun á sér mjög langa sögu. Fyrstu mælingar á þessum áhrifum bentu til þess að hann gleypti í sig varmageislun. Þegar menn héldu svo áfram að mæla þetta í kringum aldamótin 1900 uppgötvuðu þeir að þegar ákveðnu marki er náð hefur aukning koltvísýrings mjög lítil áhrif,“ segir Halldór.
Síðarmeir uppgötvuðu menn þó gallann á þeirri annars réttu athugun. „Það kemur í ljós að ef sama mæling er gerð við lægri loftþrýsting færðu allt aðrar niðurstöður. Það er miklu lægri loftþrýstingur ofar í lofthjúpnum þ.a. þó loftið við yfirborð sé mettað hvað þetta varðar og áhrifin til aukningar lítil þar þá eru þau samt sem áður veruleg ofar í lofthjúpnum. Hlýnun sem verður þar skilar sér alltaf strax niður til yfirborðsins. Menn áttuðu sig á þessu fyrir um fimmtíu árum svo það er óþarfi að halda lífi í þessari mýtu.“
Staðhæfingar um að koltvísýringur eigi sér náttúrulega uppsprettu eru á vissan hátt réttar en gefa þó villandi mynd af ástandinu, segir Halldór. „Það er ákveðin hringrás kolefnis á jörðinni og ef maður skoðar magn losunar mann getur það virkað lítið sem hlutfall af því sem náttúran losar.“
Gríðarlegt flæði kolefnis verður t.a.m. úr lofthjúpnum og niður til skóga þegar tré laufgast á vorin og aftur upp þegar þau fella laufin og þau rotna. Fleiri álíka þættir spila þar inn í og segir Halldór það ekki skrýtið að menn sjái koltvísýringslosun mannkyns sem hverfandi hlutdeild í ljósi þess.
Horfa verður þó til þess að þar er um hringrás að ræða sem sé í jafnvægi. „En allt sem þú bætir við kemur þar ofan á. Spurt er þá: Hvaða rök hefur þú fyrir því að þetta sé viðbótarkoltvísýringur sem bætist við?
Þau eru sú að menn geta mælt samsætusamsetningu kolefnisins sem er að koma upp og hún passar við jarðefnaeldsneytið en ekki t.d. það sem losnar úr hafinu við hlýnun þess, sem er ein hugmyndin, eða það sem kemur úr eldgosum. Efnafræðileg fingraför á kolefninu segja því að þetta sé augljóslega úr jarðefnaeldsneyti.“
Við það bætist að súrefnisinnihald lofthjúpsins hefur minnkað og leiðir það til þeirrar niðurstöðu að koltvísýringsaukningin stafi af bruna. „Það liggja því þar að baki tvenns konar rök, sem gerir það afar sannfærandi,“ sagði Halldór.