Miðhálendi Íslands er einstök hliðstæða reikistjörnunnar Mars hér á jörðinni, að sögn kanadíska eldfjallafræðingsins Christophers Hamilton sem rannsakar Mars með HiRise-myndavélinni. Hann telur mikilvægt að vernda miðhálendið og að verðmæti þess eigi aðeins eftir að aukast með tímanum.
Hamilton kom fyrst til Íslands árið 2002 og hefur átt í margvíslegu samstarfi við íslenska jarðvísindamenn í gegnum tíðina. Hann starfaði meðal annars fyrir Goddard-geimrannsóknastöð bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA. Auk þess að gegna stöðu aðstoðarprófessors við Arizona-háskóla starfar Hamilton við HiRise-myndavélina sem er eitt tækjanna um borð í gervitunglinu Mars Reconnaissance Orbiter sem hefur verið á braut um Mars frá árinu 2006.
HiRise er gríðarlega öflugt vísindatól en upplausn myndavélarinnar er 26 sentímetrar á díl. Með henni er því hægt að ná gríðarlega nákvæmum myndum af yfirborði rauðu reikistjörnunnar. Þó að myndirnar sem myndavélin skilar af sér líkist helst abstraktmálverkum nýtast þær við rannsóknir á jarðfræði Mars, breytingum á yfirborðinu og til að velja lendingarstaði fyrir geimför.
„Þetta er myndavél en maður verður að sjá hana fyrir sér sem sjónauka. Þetta er geimsjónauki eins og Hubble nema honum er beint að yfirborði reikistjörnu frekar en út í geim. Þetta er mjög fjölhæft verkfæri,“ segir Hamilton.
Hamilton var einn þeirra sem héldu erindi á ráðstefnu Landverndar, Náttúruverndarsamtaka Íslands og Náttúruverndarsjóðs Pálma Jónssonar um miðhálendið í Hörpu á föstudag. Þar ræddi hann um hvernig hálendi Íslands hefur nýst til að skilja þær jarðfræðilegu myndanir sem menn sjá á Mars.
Það er fyrst og fremst mikil eldvirkni og samspil elds og íss sem hér er að finna sem skapar hliðstæðu við Mars sem enginn annar staður á jörðinni býður upp á í samtímanum, segir Hamilton í samtali við mbl.is. Mikið af þekkingu manna á eldvirkni komi frá Havaí og Ítalíu. Til að skilja eldvirkni á Mars þurfi hins vegar að skoða mun stærri eldgos sem eru ekki eins tíð á jörðinni.
Á Íslandi hafa orðið meiriháttar eldgos á síðustu hundruðum ára eins og í Lakagígum og nú nýlega í Holuhrauni. Hamilton segir að hraunrennslið úr þessum gosum sé margfalt á við það sem komi til dæmis upp á Havaí.
„Þessi gos eru svo stór að þau fylla heilu dalina. Hraunið flæðir um og kaffærir algerlega landslaginu. Við tölum um þau sem flæðihraungos. Á Mars eru eldgosin svo stór að þau teygja sig yfir miklar víðáttur og eru stöðvuð af fjallgörðum, dölum eða öðrum jarðmyndunum. Þau enda sem hraunhöf eða tjarnir sem fyllast og flæða síðan inn í aðra farvegi. Slík jarðvirkni á sér aðeins stað þegar mikið eldgos verður í einangruðu landslagi. Við höfum lært margt um þetta óvenjulega hraun sem maður finnur bara ekki annars staðar. Þetta sést ekki á Ítalíu eða Havaí en á Íslandi eru þessi stóru eldgos frá gossprungum sem eiga sér stað á nokkur hundruð ára fresti besti gluggi okkar til að skilja risaeldgosin sem hafa mótað sögu Mars,“ segir Hamilton.
HiRise-teymið kom hingað til lands síðasta haust og ferðaðist um hálendið. Hér gerðu vísindamennirnir ýmsar athuganir og mælingar sem nýtast þeim við rannsóknir á nágrannareikistjörnu okkar. Hamilton segir að tilgangurinn með því að koma hingað sé að finna sambærilegt landslag hér og menn hafi séð á Mars og skilja ferlana sem mynduðu það.
„Ferlið hjá okkur byrjar yfirleitt á því að líta á svæði á Mars og reyna að skilja jarðsögu þess. Við höfum röð mynda sem við fáum frá gervitunglum og notum til að búa til þrívíddarlíkan af landslagi Mars,“ segir Hamilton.
Nákvæm þrívíddarlíkön gera vísindamönnunum kleift að breyta ýmsum forsendum eins og þykkt, rúmmáli og ýmsum öðrum. HiRise-hópurinn hefur gert slík þrívíddarlíkön af ýmsum svæðum á Íslandi eins og á hálendinu og Rauðhólum utan við Reykjavík, svo dæmi séu nefnd.
„Samanburðurinn á milli Mars og jarðar kemur yfirleitt ekki frá því að segja að þetta eða hitt líti eins út heldur með því að byggja líkan sem útskýrir hvernig þessir ferlar mynda landslagið og hvernig við getum breytt forsendum eins og þyngdarkrafti og hraunmagni í eldgosum. Við byrjum á að safna gögnum til að skilja og förum svo í líkanið til að útskýra eðlisfræðina að baki,“ segir Hamilton.
Eldvirkni Mars liggur að mestu í fjarlægri fortíð en saga reikistjörnunnar er mótuð af risaeldgosum fyrir milljörðum ára. Hamilton segir að síðasta stórgosið á Mars hafi orðið fyrir um milljarði ára þó að vísbendingar séu um að eldgos hafi átt sér stað þar fyrir aðeins 5-20 milljónum ára. Á jörðinni á eldvirkni sér enn reglulega stað auk þess sem yfirborðið er mótað af vatni og vindum. Því eru fá ummerki eftir um svo gamlar jarðmyndanir hér. Á Mars verður hins vegar lítil veðrun og því eru þessar myndanir vel varðveittar.
„Eldvirknin og samspil íss og elds á Íslandi er bæði gluggi inn í fjarlæga fortíð Mars en einnig á sum þessi yngri og sjaldgæfari eldgos sem hafa átt sér stað á síðustu tugum eða hundruðum milljóna ára,“ segir Hamilton.
Þó að Mars sé þurr og köld eyðimörk í dag voru aðstæður þar hlýrri og rakari í fortíðinni þegar lofthjúpurinn var þykkari. Þá var líklega úthöf, ár og vötn að finna á yfirborðinu sem mótuðu landslagið sem við sjáum í dag. Á þessu tímabili segir Hamilton að mikil kerfi dala hafi orðið til sem líkist mjög þeim sem finnast á hálendi Íslands. Þá hafi Mars mögulega verið líkur hálendinu eins og það lítur út í dag.
„Ég held að Mars á þessum fyrri árum þegar hringrás vatns var kröftugari eigi sér góða hliðstæðu á hálendinu. Þetta tímabil var hins vegar fyrir meira en þremur milljörðum ára,“ segir Hamilton.
Þessi líkindi þýða að þegar vísindamenn eins og Hamilton fara um hálendið geta þeir næstum því ímyndað sér að þeir standi á yfirborði annarrar reikistjörnu. Hann segist aðeins hafa fengið þá tilfinningu á örfáum stöðum. Hálendið sé eitt þeirra.
„Það hafa verið nokkur augnablik þegar ég hef verið á gangi um hálendið þar sem ég hef getað ímyndað mér að fótatak mitt væri léttara og að ég væri á ferð á öðrum heimi með minna þyngdarafl. Maður verður að komast nógu langt frá því kunnuglega, byggingunum og öðru fólki til að það eigi sér stað en það eru þess töfrandi mörk þar sem þér líður eins og þú sjáir ekki aðeins jarðfræðilegu ferlana heldur landslag sem gæti verið önnur pláneta. Hálendið hefur þennan mátt en fáir staðir hafa hann í raun,“ segir Hamilton.
Vel hefur gengið að vernda svæði eins og Lakagíga á Íslandi, að mati Hamilton. Vel útbúnir ferðamenn geti komist á svæðið og notið einstakrar og fallegrar náttúru með því að leggja nokkuð á sig. Hann varar hins vegar við því að auka umferðina með því að gera svæðið of aðgengilegt.
„Ef þið setjið upp brýr og bundið slitlag á vegina þannig að hver sem er geti farið þangað á litlum bílaleigubíl væruð þið ekki aðeins að auka umferðina heldur mynduð þið breyta hvers konar ferðamenn koma á svæðið og það getur verið að þeir hafi ekki eins mikla virðingu fyrir umhverfinu. Ég held að Laki sé mikilvægt svæði til að verja og vernda og einnig gera aðgengilegt en ef þið gerið það of aðgengilegt þá getur það haft skaðleg áhrif,“ segir hann.
Önnur hætta sem lönd eins og Kanada og Bandaríkin hafi rekið sig á sé að möguleikanum á nýtingu einstakra svæða hafi verið haldið opnum þrátt fyrir að þau hafi átt að heita vernduð. Slíkar ákvarðanir séu teknar snemma og áhrifa þeirra gæti til langs tíma. Því sé mikilvægt að taka réttar ákvarðanir strax í byrjun.
„Óspillt svæði eins og þetta landslag verða aðeins verðmætari með tímanum eftir því sem þau verða sjaldgæfari. Önnur lönd eins og Bandaríkin og Kanada sem fjárfestu snemma í þjóðgörðum sínum hafa ekki séð eftir því og ég held að eina eftirsjá þeirra sé að hafa ekki gert þá stærri á sínum tíma,“ segir Hamilton.
Fyrri frétt mbl.is: HiRise á hálendi Íslands