Áhrifamikill hópur vísindamanna, undir leiðsögn James Hansen, fyrrum forstöðumanns NASA-Goddard stofnunarinnar, hefur birt voveiflegar niðurstöður rannsóknar sem þykja benda til þess að áhrifa loftslagshlýnunar muni gæta mun fyrr og að þeim fylgi meiri hörmungar en áður var talið.
Í niðurstöðunum er sagt að hlýnun næstu áratuga gæti haft í för með sér gífurmikla bráðnun jökla, ofsafengna ofurbyli og risaöldur sem væru jafnvel nógu öflugar til að þeyta grjóthnullungum.
Hansen, sem oft er eignaður heiðurinn af því að hafa beint athygli almennings að loftslagsbreytingum með vitnisburði sínum fyrir Bandaríkjaþingi árið 1988, segir rannsóknina vera þá mikilvægustu sem hann hefur gert á ferli sínum. Alls koma 19 höfundar að rannsóknarritgerðinni sem tekur mið af gögnum síðustu áratuga sem og þeim gögnum sem safnað hefur verið aftan úr forneskju.
„Ég held að allir sem eru kunnugir þessum fræðum séu nú mjög áhyggjufullir um að við séum að nálgast þann punkt, ef við höfum ekki náð honum nú þegar, þegar við höfum valdið óafturkræfum og miklum breytingum fyrir unga fólkið og næstu kynslóðir,“ segir Hansen í samtali við Washington Post.
Ekki eru þó allir sannfærðir um raunverulega tilvist loftslagsbreytinga.
Í umfjöllun tímaritsins Slate er vísað til orða Michael E. Mann, vísindamanns og prófessors við jarðfræðistofnun Penn State háskóla, sem segist nýlega hafa orðið fyrir því að viðmælandi hans hafnaði því að loftslagsbreytingar væru raunverulegar, meðal annars á þeim grundvelli að sjórinn í kringum Ísland færi kólnandi.
Á myndinni sem Mann birtir í tísti sínu sést hvar kirsuber eru hengd í krana á innsettri mynd. Með þessu vill hann eflaust meina að efasemdarmaðurinn hafi í málflutningi sínum aðeins verið að styðjast sérstaklega við þau gögn sem hann taldi gagnast sér, en hafna öllum öðrum á sama tíma. Nokkurs konar kirsuberjatínsla (e. cherry-picking).
En þessi kaldi blettur er ekki aðeins einhver tilviljanakennd sveifla. Þvert á móti virðist sem efasemdarmaðurinn hafi með þessu einmitt vísað til þeirrar staðreyndar sem einna helst bendir til þess að miklar loftslagsbreytingar séu að eiga sér stað, að því er segir í umfjöllun tímaritsins.
Fréttaskýring Morgunblaðsins: Gæti kólnað á Íslandi næstu áratugina
Golfstraumurinn sem flytur hlýjan sjó neðan úr Karíbahafi og hingað að ströndum Íslands og Norður-Evrópu, reiðir sig á ýmsa umhverfisþætti. Einna helst veltur flæði straumsins á því hversu mikil selta er í sjónum. Ferskvatn er nefnilega eðlisléttara en saltvatn og flýtur því ofan á saltvatninu.
Þar kemur hlýnun loftslagsins til sögunnar. Við bráðnun Grænlandsjökuls flæðir gríðarlegt magn ferskvatns í Norður-Atlantshafið. Þetta vatn flýtur svo á yfirborðinu og lokar í raun á Golfstrauminn, sem einnig leitar á yfirborðið sökum hita þess sjávarvatns sem hann flytur.
Golfstraumurinn hefur mikilvæg áhrif á heimsloftslagið. Ef hann hættir að flæða norður til Evrópu gætu því fylgt hörmungar á heimsvísu. Í því felast tímamót sem loftslagsvísindamenn telja geta verið ein þau afdrifaríkustu fyrir loftslagið.
Hitastig á jörðinni eru að hækka jafnt og þétt en rólega þó, og margar þeirra breytinga sem eru í umræðunni gætu tekið einhverjar aldir. En flæði straumsins gæti breyst til muna eða jafnvel hætt á næstu áratugum, allt eftir því hversu hratt Grænlandsjökull bráðnar.