Jarðfræði Íslands er í sviðsljósi breska ríkisútvarpsins BBC sem birtir ítarlega umfjöllun um hræringar í jarðskorpunni hér í fortíð og samtíð. Fréttamaður þess segir fólk yfirleitt ekki geta séð jörðina breytast undir fótum sér en á Íslandi sé ómögulegt að hunsa það.
Í myndrænni umfjölluninni sem birt er á jarðvísindasíðu BBC talar fréttakonan Melissa Hogenboom meðal annars við íslenska jarðvísindamanninn Freystein Sigmundsson frá Háskóla Íslands sem leiðir hana í allan sannleik um flekahreyfingar, eldhræringar og gosið í Holuhrauni.
Þar útskýrir Freysteinn meðal annars að sama jarðfræðilega ferli hafi átt sér stað á Þingvöllum og í gossprungunni í Holuhrauni. Á Þingvöllum hafi sprungan hins vegar verið svelt af kviku og því hafi jörðin sigið þar.