Vilja risastóran gagnaturn á Íslandi

Turninn er býsna framtíðarlegur ásjónum.
Turninn er býsna framtíðarlegur ásjónum. Tölvugerð mynd arkitektanna

Gagnaiðnaður fer ört vaxandi, hver millifærsla, skráning, tölvupóstur og jafnvel músasmellur er geymdur á vefþjónum víða um heim. Svo hefst greinargerð ítalskra arkitekta sem fylgir verðlaunatillögu þeirra að nýjum gagnaversturni á Íslandi.

Tillagan hafnaði í þriðja sæti í nýafstaðinni hönnunarkeppni tímaritsins eVolo.

Segir í greinargerðinni að þessari öru þróun muni fylgja sá vandi að erfitt verði að finna öllum þessum gögnum stað. Í dag nýti gagnaver mikla raforku og skilji eftir sig stórt kolefnafótspor, þar sem stöðugt þurfi að kæla þau niður til að forðast ofhitnun tölvubúnaðarins.

Teikningar arkitektanna

Nálægðin við heimskautbaug kostur

Arkitektarnir Valeria Mercuri og Marco Merletti frá Ítalíu leggja því til að reisa gagnaver þar sem orkan er hrein og kostnaður lítill. Segja þau Ísland hentugan stað vegna þessa og nefna þrjár ástæður máli sínu til stuðnings.

Í fyrsta lagi er það staðsetningin, en lega landsins á milli Evrópu og Bandaríkjanna þýðir að fyrirtæki geta rekið vefþjónustur sínar fyrir báðar heimsálfurnar á einum stað.

Í öðru lagi nefna þau endurnýjanlega orkugjafa landsins. Segja þau að Ísland geti boðið gagnaverum 100% hreina orku með jarðhita- og vatnsafli, fyrir sama verð eða minna en gengur og gerist erlendis, þar sem orkugjafinn sé jarðefnaeldsneyti.

Að lokum er loftslagið sagt henta vel. Nálægð Íslands við heimskautsbaug gefi möguleika á að nýta kuldann og náttúrulega vindinn til að kæla verin niður án þess að þurfa að reisa hefðbundið kælingarkerfi fyrir mikið fé.

Teikningar arkitektanna

Sívalningslaga móðurborð

„Í tillögu okkar felst sýn á það hvernig það gæti verið að hafa grænt gagnaver til framtíðar á Íslandi. Gagnaver eru gjarnan stórar iðnaðarbyggingar án sérstakrar hönnunar, í raun eins og stór einkennislaus gámur.“

Turninn er hugsaður sem eins konar risastórt sívalningslaga móðurborð. Gert er ráð fyrir að á ytra yfirborðinu verði allur vélbúnaður en að innan verði turninn holur. Þar geti loftað um vélbúnaðinn auk þess sem lyfta geti fært hverja gagnaeiningu niður á jarðhæð til viðhalds og uppfærslna. Þá geti hiti versins einnig nýst til að hita hús í nágrenni hans á veturna.

Sjá tillöguna í heild sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert