Hlýnunin gæti skapað súrefnisþurrð í höfunum

Vísbendingar eru um að hnattræn hlýnun muni valda súrefnisþurrð í …
Vísbendingar eru um að hnattræn hlýnun muni valda súrefnisþurrð í höfum jarðar. mbl.is/Ómar

Vitað er að hnattræn hlýnun af völdum manna hefur mikil áhrif á höf jarðar. Yfirborð sjávar hækkar og aukinn styrkur koltvísýrings gerir þau súrari. Vísindamenn vekja nú athygli á annarri afleiðingu hlýnunar á sem hefur minni athygli fengið en það er að hlýnunin gæti valdið súrefnisskorti í sjónum.

Hafið sjálft er að hlýna því stærstur hluti þeirrar hlýnunar sem menn hafa valdið á jörðinni með því að brenna jarðefnaeldsneyti endar þar. Þetta veldur því að höfin þenjast út og yfirborð sjávar hækkar. Hlýnunin dregur hins vegar einnig úr magni súrefnis sem er uppleyst í vatninu því hlýrri sjór inniheldur minna súrefni en kaldari, að því er kemur fram í umfjöllun Washington Post.

Í nýrri rannsókn sem vísindamenn við bandaríska háskóla standa að segir að súrefnismagn sjávar minnki ekki aðeins vegna þessarar einföldu eðlisfræði. Þegar hafið hlýnar verður ekki eins mikil blöndun á milli vatnsins við yfirborðið og þess í hyldýpinu. Þéttleiki yfirborðsvatnsins minnkar og því blandast það síður niður á við.

Þetta þýðir að súrefni úr lofthjúpnum sem leysist upp í efstu lögum sjávar eða það sem ljóstillífandi lífverur í honum mynda berst ekki neðar í hafið í sama mæli og áður. Vísindamennirnir kalla þetta „afoxun“ hafsins en afleiðingar hennar geta verið gríðarlega alvarlegar fyrir lífríki hafsins sem reiðir sig á súrefni eins og lífverur á landi.

Kemur verst niður á djúpsjávardýrum

Dragi úr súrefnismagni í hafinu geta myndast svonefnd lágsúrefnissvæði í því þar sem plöntur, fiskar og aðrar lífverur geta illa þrifist. Í rannsókninni sem Matthew Long, sjávarfræðingar við bandarísku lofthjúpsrannsóknastofnunina, og félagar hans gerðu kemur fram að sum hafsvæði séu líklegar þegar byrjuð að sýna merki um súrefnisþurrð vegna hnattrænnar hlýnunar. Þeim muni aðeins fjölga ef menn dragi ekki úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum.

„Þau munu finnast tiltölulega víða á 4. og 5. áratugnum,“ segir Long. 

Breytingarnar koma verst niður á djúpsjávardýrum þar sem ástandið í efstu lögum hafsins þar sem er stöðug uppspretta súrefnis verður áfram lífvænlegt. Djúpsjávardýrin fái hins vegar minna súrefni niður til sín. Hlýrri sjór leiðir ennfremur til hraðari efnaskipta í dýrum sem aftur krefjast meira súrefnis.

Líkön vísindamannanna benda til þess að áhrif minnkandi súrefnis í höfunum verði afar breytilega frá einum stað til annars. Long segir að afoxunin bætist við þá ógn sem lífríki hafsins stafar af hlýnun og súrnun sjávar.

„Þessi hlutir eru að ýta vistkerfi hafsins út á óþekktar brautir,“ segir hann en rannsóknin birtist í tímaritinu Global Geochemical Cycles.

Frétt Washington Post

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert