Skikkaðir á námskeið um vísindi bólusetninga

Sums staðar hefur dregið úr bólusetningum barna vegna rangra upplýsinga …
Sums staðar hefur dregið úr bólusetningum barna vegna rangra upplýsinga sem óprúttnir aðilar hafa dreift um þær. mbl.is/Árni Sæberg

Foreldrar barna sem neita að láta bólusetja þau af trúarlegum eða siðferðislegum ástæðum verða skikkaðir til að sitja námskeið um mikilvægi þeirra, hættu þess að sleppa þeim og tilgang hjarðónæmis ef frumvarp sem heilbrigðisráðherra Ontario-fylkis í Kanada hefur lagt fram verður að lögum. 

Hátt í sex hundruð nemendur voru sendir heim úr skólum í Waterloo-héraði vegna þess að bólusetningavottorð þeirra voru útrunnin eða ófullkomin. Hlaupabólufaraldur gengur nú yfir í nágrannaríkinu Michigan í Bandaríkjunum og kíghósti hefur brotist út í Alberta í Kanada.

Heilbrigðisyfirvöld í Ontario hafa áhyggjur af því að sumir foreldrar sem vísa til trúarlegrar eða siðferðislegrar afstöðu gegn bólusetningum séu einfaldlega ruglaðir í ríminu eða hafi fengið rangar upplýsingar. Hægt sé að slökkva ótta þeirra með því að kenna þeim vísindin að baki bólusetningum.

„Með því velja að bólusetja barnið þitt verðu það fyrir sjúkdómum og það verndar viðkvæm börn sem ekki er hægt að bólusetja af læknisfræðilegum ástæðum. Þess vegna er mikilvægt fyrir foreldra að fylgja eftir bólusetningum barna sinna,“ segir Eric Hoskins, heilbrigðisráðherra fylkisins.

Foreldrar sem sitja námskeiðið en kjósa samt að láta ekki bólusetja börnin sín geta enn valið að gera það.

Rangar upplýsingar hafa lengi verið á kreiki um bólusetningar. Þannig hafa frægir einstaklingar eins og Jenny McCarthy og Robert De Niro haldið áfram að dreifa sögum um að MMR-bólusetningar valdi einhverfu í börnum þrátt fyrir engin vísindaleg gögn styðji þær fullyrðingar og flett hafi verið ofan af breskum lækni sem hélt því fram á 10. áratug síðustu aldar.

Frétt kandadíska blaðsins National Post um frumvarpið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert