120 metra öldur eyddu ströndum Mars

Mynd sem Hubble-geimsjónaukinn tók af Mars 12. maí.
Mynd sem Hubble-geimsjónaukinn tók af Mars 12. maí. NASA, ESA, the Hubble Heritage Team (STScI/AURA), J. Bell (ASU), og M. Wolff (Space Science Institute)

Loftsteinn sem rakst á reikistjörnuna Mars fyrir um 3,4 milljörðum ára olli risaflóðbylgju með allt að 120 metra háum öldum sem máðu út strandlengjur forsögulegs hafs sem þar var að finna. Þetta er kenning vísindamanna sem hafa rýnt í yfirborð reikistjörnunnar á myndum brautarfara undanfarin ár.

Reikistjörnufræðingar hafa lengi talið að fyrr í sögu nágrannareikistjörnu okkar hafi úthaf fljótandi vatns þakið stóran hluta norðurhvels hennar. Vitað er að vatnsís er frosinn í jörðu og vatnssameindir hafa fundist í lofthjúpi Mars. Strandlengja þessa hafs hefur hins vegar ekki fundist enn sem komið er.

Nú hefur hópur vísindamanna birt grein í tímaritinu Scientific Reports þar sem þeir halda því fram að risavaxnar flóðbylgjur hafi eytt strandlengjunni tiltölulega snemma í sögu reikistjörnunnar. Komu þeir auga á jarðfræðileg ummerki eins og hnullunga og ísleifar sem flóðbylgjurnar gætu hafa skilið eftir sig á myndum frá nokkrum brautarförum sem hringsóla um Mars.

Flæddi og fraus yfir strandlínuna

Loftsteinninn sem á að hafa valdið flóðbylgjunni er sagður hafa skilið eftir sig gíg sem er rúmlega þrjátíu kílómetrar að þvermáli. Þegar flóðið hörfaði aftur út í hafið skildi það eftir sig allt að níu metra háa hnullunga og farvegi sem veita vísbendingar um hvernig hafið reis, að því er kemur fram í umfjöllun New York Times.

Eftir þessa atburði telja vísindamennirnir að Mars hafi gengið í gegnum kuldatímabil og hafið hafi lagt. Nokkrum milljónum eftir fyrri loftsteinaáreksturinn hafi annar loftsteinn rekist á frosið hafið. Sá árekstur hafi valdið annarri risaflóðbylgju með álíka háum öldum en stað fljótandi vatns hafi aurblandaður krapi flætt um yfirborðið. Það flóð hafi ekki gengið til baka heldur hafi það frosið og grafið þannig það sem eftir var af upphaflegu strandlengjunni.

„Við erum að sýna að strandlínan var þarna en það flæddi yfir hana og hún grófst undir flóðbylgjuöldunum,“ segir J. Alexis Rodriguez, sérfræðingur í jarðfræði Mars við Reikistjörnufræðistofnunina í Tuscon í Arizona og einn höfunda greinarinnar.

Hann vill að könnunarjeppar framtíðarinnar rannsaki merki um flóðbylgjurnar sem hann telur að gætu gefið mönnum vitneskju um hvort að hafið á Mars hafi getað staðið undir lífi.

Umfjöllun New York Times um afdrif strandlínu Mars

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert