Sérstæðir steinhringir sem fundust djúpt í helli í Frakklandi virðast hafa verið gerðir af neanderdalsmönnum úr dropasteinum fyrir um 175.000 árum, að sögn vísindamanna. Þessar frumstæðu byggingar benda til þess að þeir hafi verið færir um flóknari hegðun en talið hefur verið fram að þessu.
Hringirnir eru gerðir úr um það bil fjögur hundruð brotum dropasteinum sem hafa verið brotnir úr hellisgólfinu og raðað einum ofan á annan til að mynda frumstæða veggi. Byggingin sem er mest áberandi er tvöfaldur hringur með fjórum lögum af dropasteinum á sumum stöðum. Svo virðist sem að uppréttir dropasteinar hafi verið notaðir sem fleygir til að halda veggjunum á sínum stað. Stærsti veggurinn er sjö metrar á breidd og um 40 sentímetra hár.
Það voru hellaleiðangursmenn sem fundu minjarnar um 300 metra frá munna Bruniquel-hellisins nærri Pýraneafjöllum í suðvesturhluta Frakklands á 10. áratug síðustu aldar en í fyrstu var talið að þær væru mun yngri, aðeins um 50.000 ára gamlar.
Nýjar aldursmælingar á steinunum sem greint er frá í tímaritinu Nature benda hins vegar til að veggirnir séu mun eldri. Oddar dropasteinanna og brennd bein sem fundust í veggjunum eru talin að minnsta kosti 175.000 ára gömul. Frönsku og belgísku vísindamennirnir sem gerðu rannsóknina segja að aðeins neanderdalsmenn hafi getað byggt veggina.
Neanderdalsmenn bjuggu í Evrasíu frá því fyrir um 400.000 árum og þangað til fyrir um 40.000 árum. Þeir dóu út um þær mundir sem nútímamaðurinn kom fyrst fram á sjónarsviðið á svæðinu.
Vísindamenn hafa hingað til ekki talið neanderdalsmenn færa um að smíða svo flóknar byggingar og því kemur uppgötvunin á óvart. Neanderdalsmönnunum var hins vegar ýmislegt til lista lagt. Þeir notuðu verkfæri úr steini, beisluðu eld, gengu í fötum og bjuggu í skýlum. Merki hafa fundist um að þeir hafi notað skeljar sem skartgripi og þrætt þá upp á band. Þá er jafnvel talið að þeir hafi viljandi grafið fallna félaga.
Ekkert liggur fyrir um hver tilgangur veggjanna í hellunum gæti hafa verið, ef einhver, en vísindamenn segja erfitt að geta sér til um það þar sem að sambærilegar byggingar hafi ekki fundist annars staðar.
„Það er að verða virkilega skýrt með neanderdalsmenn að með hæfni þeirra og getu þá er ekki mikið stökk frá þeim til nútímamanna. En þetta er mjög undarleg hegðun. Mig langar til að skilja hvers vegna þeir gerðu þetta,“ segir Marie Soressi, fornleifafræðingur við Leiden-háskóla sem tók ekki þátt í rannsókninni, við The Guardian.