Geta bundið kolsýring á tveimur árum

Ljósmynd/Orkuveita Reykjavíkur

Hægt er að binda koltvísýring sem steintegund í basaltberglögunum við Hellisheiðarvirkjun að 95 prósentum á tveimur árum en ekki öldum eða árþúsundum eins og áður var talið.

Þetta kemur fram í grein sem mun birtast í dag í Science sem er eitt útbreiddasta og þekktasta vísindatímarit heims. Greinin fjallar um CarbFix-loftslagsverkefnið sem unnið hefur verið að við virkjun Orku náttúrunnar á Hellisheiði frá árinu 2007.

Aðalhöfundur greinarinnar er Jürg Matter, einn þeirra fjölda vísindamanna sem komið hafa að verkefninu. Verkefnisstjóri þess er dr. Edda Sif Pind Aradóttir, vísindamaður á þróunarsviði Orkuveitu Reykjavíkur. OR hefur verið helsti bakhjarl verkefnisins frá því til þess var stofnað. Að því hefur komið fjöldi vísindamanna auk iðnaðarmanna og tæknifólks OR og síðar einnig Orku náttúrunnar.

Þau meginmarkmið sem lagt var upp með við stofnun CarbFix-verkefnisins voru þrjú:

  • Að auka skilning á því hvað verður um koltvísýring sem dælt er niður í berggrunninn til langs tíma litið.
  • Að þróa tækni til að binda koltvísýring varanlega í jarðlögum.
  • Að gefa út og miðla niðurstöðum rannsókna og tilrauna svo þær geti nýst sem víðast.

Nú er ljóst að öll markmið hafa náðst og áfram verður unnið að frekari framgangi þeirra. CarbFix-verkefnið er einstakt að því leyti að það tengist beint rekstri jarðvarmavirkjunar og er merkilegt dæmi um samstarf vísindasamfélagsins og orkufyrirtækis. Koltvísýringur, sem kemur upp með jarðhitavökvanum og færi annars út í andrúmsloftið, er bundinn í bergi í grennd virkjunarinnar og eykur þar með grænt gildi orkuframleiðslunnar.

Koltvísýringur er um 0,4% útblásturs virkjunarinnar. Með því að leysa koltvísýringinn upp í vatni við niðurdælingu – svipað og í sódavatni – er verulega dregið úr hættu á því að hann sleppi til yfirborðs áður en hann binst í formi karbónat steinda í berggrunninum. Koltvísýringurinn binst jafnframt hraðar í berginu sé hann uppleystur í vatni. Þessi binding koltvísýrings í bergi er þekkt í náttúrunni og sést oft sem hvítar doppur eða holufyllingar í gosbergi.

Verkefnið hefur notið alþjóðlegra rannsóknarstyrkja meðal annars frá Evrópusambandinu og Bandaríkjastjórn.

„Þessar niðurstöður eru merkilegar fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi hvað bindingin er hröð. Aðferðirnar sem við höfum þróað standa öðrum tilraunum í þessa veru talsvert framar hvað þetta varðar. Í öðru lagi er þessi aðferð miklu ódýrari en aðrar sem við höfum upplýsingar um.

Við áætlum að kostnaður við bindingu hvers tonns sé um 3.500 krónur. Það helmingur til fjórðungur af þeim fjárhæðum sem gefnar hafa verið upp við samsvarandi verkefni. Í þriðja lagi höfum við nú í höndunum niðurstöður sem gefa til kynna að heimsbyggðin hafi eignast nýtt vopn í baráttunni við loftslagsvandann,“ er haft eftir Eddu Sif í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert