Íslenskir karlar eru í níunda sæti yfir hæstu karlmenn heims. Árið 1914, fyrir rúmri öld, voru okkar menn í sjötta sæti. Á toppnum tróna þeir hollensku sem verða að meðaltali 183 cm að hæð. Íslenskar konur eru ekki á listanum yfir tíu hávöxnustu þjóðirnar. Konur frá Lettlandi eru hæstar kvenna, að meðaltali 170 cm.
Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem birt er í vísindatímaritinu eLife. Í rannsókninni er þróun hæðar 187 þjóða heims rakin allt frá árinu 1914.
Meðal þess sem kemur í ljós er að suðurkóreskar konur og íranskir karlmenn hafa hækkað mest á þessu hundrað ára tímabili. Konur í Suður-Kóreu hafa hækkað að meðaltali um 20 cm á einni öld og karlar í Íran um 16 cm.
Í Bretlandi hafa karlar og konur bætt við sig sama sentímetrafjölda að meðaltali, eða 11. Meðalkarlmaður í Bretlandi er núna 178 cm og meðalkona 164 cm.
Í Bandaríkjunum hafa meðalkonan og meðalmaðurinn aðeins hækkað um 5 cm. Bandaríkjamenn voru mun ofar á listanum yfir hávöxnustu þjóðir heims fyrir öld. Þá voru karlarnir í þriðja sæti og konurnar í því fjórða. Nú er öldin önnur og karlarnir eru í 37. sæti og konurnar í 42.
Allar þær tíu þjóðir sem raða sér í efstu sætin á listanum, hvort sem um karla eða konur er að ræða, eru í Evrópu.
Lágvöxnustu karlmenn heims eru nú á Austur-Tímor. Þeir eru að meðaltali 160 cm á hæð. Lágvöxnustu konur heims eru í Gvatemala. Þær voru einnig í botnsætinu fyrir heilli öld. Þá var meðalkonan 140 cm en nú er hún 150 cm.
Íbúar í Austur-Asíu hafa hækkað hlutfallslega mest. Fólk í Japan, Kína og Suður-Kóreu er mun hærra nú en það var fyrir 100 árum.
Í löndum sunnan Sahara í Afríku, m.a. í Úganda og Síerra Leóne, hefur meðalhæð fólks minnkað frá áttunda áratugnum.
Í rannsókninni kemur fram að í sumum tilvikum séu það erfðir sem skýri meðalhæð þjóða. En vísindamennirnir sem stóðu að rannsókninni segja það þó ekki ráðandi þátt.
Þeir segja að um þriðjungur skýringarinnar liggi í erfðum, annað skýrist af umhverfisþáttum. Má þar nefna aðgang að mat, heilsugæslu og hreinlæti.
Aðrar rannsóknir hafa sýnt að hæð fólks getur sagt til um lífsgæði þess. Fólk sem er hærra lifir að meðaltali lengur og er heilbrigðara að mörgu leyti. Það er t.d. ólíklegra til að fá hjartasjúkdóma. Hins vegar eru vísbendingar um að hæðin auki líkur ákveðnum tegundum krabbameins.