Olíuborpallur strandaði við Skotland

Mynd þessi var tekin við Carloway í Skotlandi.
Mynd þessi var tekin við Carloway í Skotlandi. AFP

Olíuborpallurinn Transocean Winner strandaði við strendur Skotlands í gærmorgun eftir að óveður varð til þess að dráttartaugin sem notuð var til að draga pallinn slitnaði.

Borpallurinn hefur verið í notkun undan ströndum Noregs undanfarinn áratug en nýverið var tekin sú ákvörðun að farga honum. Átti  að sigla með pallinn til Möltu þar sem taka átti hluta pallsins í sundur áður en farið yrði með hann áfram til Tyrklands þar sem förgunin átti að eiga sér stað.

Á sunnudagskvöld gerði mikið óveður sem varð til þess að dráttartaugin slitnaði. Óveðrið varð svo til þess að ekki gekk að festa pallinn aftur við dráttartaug og rak hann því á landgrunninn utan Carloway í Skotlandi. 

„Verið var að draga borpallinn í miklu óveðri sem varð til þess að dráttartaugin slitnaði og hann strandaði við Skotland. Enginn í áhöfninni er í hættu. Transocean vinnur nú með yfirvöldum á svæðinu að því að leysa vandamálið eins hratt og hægt er,“ segir í tilkynningu frá Transocean. 

Sjá frétt Dagbladet.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert