Óttinn við drægi rafbíla ofmetinn

Rannsóknin miðaði við að hefðbundnum bílum væri skipt út fyrir …
Rannsóknin miðaði við að hefðbundnum bílum væri skipt út fyrir minni rafbíl eins og Nissan Leaf.

Hægt væri að skipta út allt að 87% banda­rískra bíla með ódýr­um raf­magns­bíl­um jafn­vel þó að öku­menn þeirra gætu ekki hlaðið þá yfir dag­inn. Þetta er niðurstaða rann­sak­enda við MIT-há­skóla og Santa Fe-stofn­un­ina sem könnuðu akst­urs­hegðun Banda­ríkja­manna og ýmsa þætti sem hafa áhrif á drægi raf­bíla.

Marg­ir bíla­eig­end­ur hafa efa­semd­ir um að skipta úr bens­ín- eða dísil­bíl­um yfir í um­hverf­i­s­vænni raf­magns­bíla vegna ótta þeirra við drægi raf­knúnu öku­tækj­anna. Rann­sak­end­urn­ir birta hins veg­ar grein í tíma­rit­inu Nature Energy sem virðist benda til þess að þessi „drægisk­víði“ sé veru­lega of­met­inn.

Þeir byggðu ekki aðeins á gögn­um um hvernig Banda­ríkja­menn keyra bíl­ana sína held­ur einnig upp­lýs­ing­um um þætti eins og hita­stig í mis­mun­andi lands­hlut­um, lengd bíl­ferða og eldsneyt­isnýtni mis­mun­andi bíla. For­send­ur rann­sókn­ar­inn­ar er að i staðinn aki fólk hóf­lega verðlögðum raf­bíl, Nis­s­an Leaf ár­gerð 2013, og hlaði hann á nótt­unni.

Hlut­fallið var nán­ast það sama hvar sem borið var niður í Banda­ríkj­un­um, þrátt fyr­ir mis­mun­andi aðstæður á hverj­um stað. Hægt væri að skipta um 84-93% hefðbund­inna bíla út fyr­ir raf­mangs­bíla miðað við nú­ver­andi akst­urs­hegðun.

Til mik­ils er að vinna því höf­und­ar rann­sókn­ar­inn­ar reikna út að ef 90% bíla yrðu raf­vædd­ir væri hægt að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda sem valda lofts­lags­breyt­ing­um um 30%.

Um­fjöll­un Washingt­on Post um könn­un MIT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert