Gæti tvöfaldað endingu rafhlaðna

Hleðsla snjallsíma gæti enst tvölfalt lengur með nýju rafhlöðutækninni.
Hleðsla snjallsíma gæti enst tvölfalt lengur með nýju rafhlöðutækninni. mbl.is/Styrmir Kári

Ný liþíummálmrafhlaða sem fyrirtæki á vegum fyrrum MIT-nema hefur þróað gæti látið rafhlöður í snjallsímum, rafbílum og drónum endast tvöfalt lengur. Fyrirtækinu tókst að tvöfalda orkuþéttleika rafhlöðunnar með því að skipta út grafíti í jáskauti hennar fyrir örþunnar liþíummálmþynnu.

„Með tvöfaldan orkuþéttleika getum við búið til rafhlöður sem eru helmingi minni en endast samt eins lengi og liþíumjónarafhlöður eða við getum búið til rafhlöðu sem er jafnstór og liþíumjónarafhlaða en sem endist tvöfalt lengur,“ segir Qichao Hu sem stofnaði fyrirtækið SolidEnergy Systems eftir að hann lauk doktorsnámi við MIT. Sagt er frá verkefninu á vefsíðu háskólans.

Liþíummálmþynnan getur haldið fleiri jónum en grafítið og býður þess vegna upp á meiri orkuþéttleika. Efnafræðilegar breytingar á raflausn rafhlöðunnar gera þær endurhlaðanlegar og öruggar í notkun. Rafhlöðurnar eru framleiddar með núverandi framleiðslubúnaði og því verður hægt að skala framleiðsluna upp og niður eftir því sem hentar.

Í fyrstu er ætlunin að nota nýju rafhlöðuna í dróna í nóvember en síðan hyggst fyrirtækið koma henni í snjallsíma, jafnvel strax á næsta ári. Þýðingin fyrir rafbíla gæti einnig verið veruleg.

„Viðmiðið í iðnaðinum er að rafbílar verði að komast að minnsta kosti 200 mílur [um 320 kílómetra] á einni hleðslu. Við getum framleitt rafhlöðu sem er helmingi minni og léttari sem kemst sömu vegalengd eða við getum framleitt rafhlöðu af sömu stærð og þyngd en nú kemst hún 400 mílur [um 640 kílómetra],“ segir Hu.

Frétt á vef MIT um nýju rafhlöðuna 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert