Aðgerðaleysi breskra stjórnvalda hefur sett fílinn í hættu en fyrir síðustu kosningar hétu íhaldsmenn að uppræta innlendan markað með fílabein. Á þeim tíma voru 30.000 fílar drepnir á ári hverju vegna skögultanna sinna. Engar aðgerðir hafa litið dagsins ljós frá þeim tíma.
Þetta segja náttúruvendarsinnar en þrátt fyrir að alþjóðleg lög séu í gildi sem banna sölu fílabeins, gerir skortur á staðbundnum reglum og eftirfylgni glæpagengjum kleift að smygla vörunni inn til Bretlands, þar sem hún er seld sem fornmunir.
Fleiri en 1,6 milljónir manna hafa tekið þátt í undirskriftasöfnun þar sem skorað er á ríkisstjórnir að uppræta innlenda markaði fyrir fílabein.
„Afrískir fílar gjalda með blóði fyrir brotin loforð stjórnvalda um að banna sölu á fílabeini í Bretlandi,“ segir Bert Wander, framkvæmdastjóri baráttusamtakanna Avaaz. Hann segir tímabært að bresk stjórnvöld létu gjörðir fylgja orðum.
„Annars sjá Kína og aðrir heitir reitir fyrir fílabeinssölu enga ástæðu til að taka í gildi hið varanlega bann gegn fílabeini sem til þarf til að koma í veg fyrir að fílar þurrkist út af jörðinni,“ segir Wander.
Á árunum 2009-2014 námu hlutir úr fílabeini 40% af öllum þeim varningi sem bresk tollayfirvöld lögðu hald á. Á síðasta ári var lagt hald á 110 kg af fílabeini bara á Heathrow-flugvelli.