Nýtt lyf sem verið er að þróa gegn Alzheimerssjúkdómnum virðist vera öruggt og skila árangri gegn orsök hans ef marka má fyrstu tilraunir með lyfið á sjúklingum. Rannsóknirnar eru enn á frumstigi en þessar fyrstu vísbendingar glæða vonir manna um að lyfið reynist árangursríkt.
Óeðlilegar útfellingar prótína í heilanum sem hafa verið nefnd mýlildi á íslensku eru taldar orsök Alzheimers. Talið er að skán sem prótínin mynda á milli taugafrumna valdi hrörnun og dauða heilafrumna.
Aducanumab er sagt eyða þessari skán en lyfið er enn á frumstigum þróunar. Grein um fyrstu tilraunirnar með það á mönnum birtist í vísindaritinu Nature þar sem það er sagt öruggt og vísbendingar séu um að það stöðvi minnisglöp.
Rannsóknin stóð yfir í ár og tóku 165 manns þátt í henni. Henni var ætlað að sýna hvort lyfið væri öruggt. Fjörutíu manns heltust úr lestinni, um helmingur þeirra vegna aukaverkana eins og höfuðverkja. Umfangsmeiri rannsóknir eru nú í undirbúningi.
Sérfræðingar eru hóflega bjartsýnir á að Aducanumab standi undir væntingum. Dr. Tara Spires-Jones við vitsmuna- og taugakerfismiðstöð Edinborgarháskóla bendir á að mörg lyf komist í gegnum þessi fyrstu stig tilrauna en standist ekki skoðun í stærri rannsóknum.
„Þessar nýju upplýsingar vekja vonir en þær eru ekki endanlegar enn,“ segir John Hardy, prófessor í taugavísindum við University College í London, við breska ríkisútvarpið BBC.