Engin tæknileg ráð eru í hendi önnur en DNS-fölsun við að framfylgja lögbanni á fjarskiptafyrirtæki sem bannar þeim að veita viðskiptavinum aðgang að níu lénum sem notuð hafa verið undir skráskiptisíður. Framsetning forsvarsmanna STEF, FRÍSK, SFH og SÍK um að fjarskiptafyrirtæki hafi „algerlega frjálsar hendur með að velja þá aðferð sem þau telja best til þess fallna að framfylgja því“ stenst því ekki.
Frétt mbl.is: Lögbannið gagnslaust og skaðlegt
Frétt mbl.is: Segja Jens gera úlfalda úr mýflugu
Þetta segir Jens Pétur Jensen, forstjóri ISNIC, en fyrr í vikunni gagnrýndi hann slík lögbönn og sagði þau skaðleg fyrir umferðarstýringu á netinu. Svöruðu forsvarsmenn fyrrnefndra höfundarréttasamtaka Jens og sögðu hann gera úlfalda úr mýflugu.
Í svari við athugasemdunum sem Jens sendi á mbl.is segir hann að hann taki það skýrt fram að hann sé ekki að mæla ólöglegu niðurhali bót. Aftur á móti vilji hann uppfræða um hættuna sem skapast þegar aðgangur almennings að tilteknum heimilisföngum (lénum) á netinu er hindraður með þessari aðferð (e. DNS Blocking) þ.e.a.s. með því að falsa svör við fyrirspurnum [í DNS-kerfinu].
Tvö félög hafa unað lögbanninu. Segir Jens að þau hafi framfylgt lögbanninu með því að beita DNS-fölsun. „Enda hafa þau félög sem undu lögbanninu (Vodafone og Síminn) einmitt þann háttin á og geta ekki annað,“ segir Jens í svari sínu. Óskar hann eftir að forsvarsmennirnir fjórir leggi fram tillögu að því hvernig eigi að framfylgja banninu ef ekki með DNS-fölsun.
Þá gerir Jens athugasemdir við þá framsetningu að það sé réttlæting á þessari tegund lögbanna að hún sé stunduð víða í hinum vestræna heimi. „Rétt er hins vegar hjá fjórmenningunum að DNS-fölsun hefur illu heilli verið beitt allt of víða, t.d. í Bandaríkjunum. Smátt og smátt dregur þó úr henni eftir því sem fleiri gera sér grein fyrir skaðanum. Þá er árangursleysi aðferðarinnar algert eins og þekkt er,“ segir Jens.
Vísar Jens í skýrslu sem opinber vísindanefnd vann fyrir hollenska þingið þar sem niðurstaðan sé meðal annars að í væntanlegri alheimslöggjöf um internetið eigi að banna stjórnvöldum að stunda DNS-fölsun.