Ofurörverur sem eru ónæmar fyrir öllum þekktum lyfjameðferðum gætu valdið fjármálakreppu í heiminum á borð við þá sem varð árið 2008, eða jafnvel verri. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem unnin var á vegum Alþjóðabankans og gerð opinber í dag.
Mótstaða gegn örverueyðandi lyfjum eykst sífellt og útlit er fyrir að í framtíðinni muni margir smitsjúkdómar aftur verða ólæknandi, knýja fólk til fátæktar og þannig verða mikil byrði fyrir þjóðir heimsins.
Það fólk og þau lönd sem minnst eiga geta átt von á að þurfa bera mesta þungann, segir meðal annars í rannsókninni, sem lítur allt fram til ársins 2050. Skaðinn af þessu geti þá orðið jafnmikill eða meiri en hlaust af fjármálakreppunni árið 2008.
„Við vitum núna að nema hratt og alvarlega verði tekist á við þennan vaxandi vanda mun hann valda hamförum fyrir heilsu manna og dýra, matvælaframleiðslu og efnahag heimsins,“ segir Margaret Chan, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.