Segir tæknifrjóvgunina mikil tímamót

Kári Stefánsson fagnar tímamótunum í læknavísindum.
Kári Stefánsson fagnar tímamótunum í læknavísindum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Kári Stefánsson, forstjóri deCODE, segir fyrsta barnið sem á „þrjá foreldra“ vera fagnaðarefni og segist vera himinlifandi yfir kjarki læknanna sem framkvæmdu aðgerðina.

„Það er ekki verið að fikta í upplýsingum sem flæða frá einni kynslóð til annarrar,“ segir Kári í samtali við mbl en líkt og fjölmiðlar greindu frá í gær er fyrsta barnið sem ber erfðaefni þriggja manna fætt. Bandarískir vísindamenn framkvæmdu aðgerðina og er barnið í dag fimm mánaða gamalt. 

Í frétt BBC um málið seg­ir að hinn fimm mánaða gamli Abra­him Hass­an sé með erfðaefni úr föður sín­um og móður en einnig að hluta úr þriðja aðila.

Tækni­frjóvg­un­in var gerð með þess­um ein­staka og sögu­lega hætti til að reyna að koma í veg fyr­ir að Abra­him litli myndi fá erfðasjúk­dóm sem móðir hans er arf­beri af.

Sér­fræðing­ar segja að þessi nýja aðferð marki tíma­mót í lækna­vís­ind­um og gæti orðið öðrum fjöl­skyld­um hjálp við að koma í veg fyr­ir að börn þeirra erfi hættu­lega og sjald­gæfa sjúk­dóma.

Frétt mbl.is: Fyrsta barnið sem á „þrjá foreldra“

Kári segir að þetta sé mikill og flottur áfangi vísinda. Segir hann fullt af sjúkdómum eiga rætur sínar í orkukornunum svonefndu en hvatberagallar erfast frá móður til fósturs.

Sjúkdómar sem eiga rætur sínar að rekja til hvatberagalla geta herjað á stórar fjölskyldur og nefnir Kári að slíkir gallar geta ollið því að börn verða blind. „Eitt af því sem virðist hægt er að bjóða konum innan slíkra fjölskyldna upp á þann möguleika að eignast börn á svolítið tæknilegri hátt en í gegnum aldirnar og því ber að fagna.“

Að mati Kára er aðgerð þessi ekki umdeild eða siðferðislega röng. „Það er ekkert að því að hjálpa konu að eignast heilbrigt barn. Það er mikill sársauki að missa tvö börn,“ segir Kári en önnur móðir barnsins hafði áður misst tvö börn vegna arfgengs sjúkdóms.

„Ég er skeptískur á genaþerapíu,“ segir Kári sem hefur áhyggjur af því að vísindamenn eigi við erfðaefni frá einni kynslóð til annarrar. „En þetta eru náttúrulegar upplýsingar. Það er ekkert verið að fikta í erfðaefninu,“ segir hann.

„Þetta er ekkert upphaf,“ segir Kári spurður hvort þetta gæti markað upphaf að einhvers konar kynbótastefnu mannkyns og kallar þetta tímamót í læknavísindum. „Menn eru búnir að fikta í langan tíma, en þetta er einn áfangastaður. Góður áfangastaður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert