Þvottavélar Samsung sagðar springa

Vandinn er sagður bundinn við ákveðnar tegundir af topphlöðnum þvottavélum …
Vandinn er sagður bundinn við ákveðnar tegundir af topphlöðnum þvottavélum frá Samsung.

Suður-kóreski raftækjarisinn Samsung hefur staðfest að fyrirtækið eigi nú í viðræðum við neytendasamtök í Bandaríkjunum, í kjölfar málaferla gegn fyrirtækinu vegna þvottavéla sem sagðar eru hafa sprungið að því er greint er frá á fréttavef BBC.

CPSC, sem er nefnd um vöruöryggi neytenda, hefur varað við vandamálum tengdum þeim þvottavélum Samsung sem eru topphlaðnar. Samsung og CPSC segja þetta eiga við ákveðnar gerðir af þvottavélum, sem framleiddar voru frá því mars 2011 til apríl 2016. „Í einstaka tilvikum þá kann að vera óvenju mikill titringur í vélunum sem getur valdið meiðslum eða skemmdum á húsmunum þegar verið er að þvo stóran þvott t.a.m. rúmföt eða stórar og umfangsmiklar flíkur,“ segir á vefsíðu Samsung.

Fyrirtækið mælir með því að neytendur kanni framleiðslunúmer véla sinna á vefsíðu Samsung. Reynist þvottavél þeirra af þessari gerð, þá er mælt með að þeir láti hana vinda þvottinn á lægri stillingu þegar umfangsmikill þvottur er í vélinni.

Samsung á einnig í vændum málsókn frá bandarísku lögfræðifyrirtæki sem fullyrðir að einhverjar tegundir topphlaðinna þvottavéla frá Samsung hafi sprungið á heimilum fólks og þannig valdið meiðslum eða eignatjóni. „Notendur hafa greint frá því að Samsung topphlaðnar þvottavélar hafi sprungið jafnvel strax daginn sem þær voru teknar í notkun, á meðan aðrir hafa tilkynnt að vélarnar hafi sprungið mánuði eða jafnvel meira en ári eftir að þær voru keyptar,“ segir í yfirlýsingu frá fyrirtækinu Lieff Cabraser 

Ekki er langt síðan Samsung þurfti að kalla inn 2,5 milljónir snjallsíma af gerðinni Galaxy Note 7, vegna tilvika þar sem kviknað hafði í rafhlöðu símans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert