Stjörnufræðingar sem hafa farið yfir gögn Hubble-geimsjónaukans hafa komist að þeirri ályktun að fjöldi vetrarbrauta í hinum sýnilega alheimi hafi verið verulega vanáætlaður fram að þessu. Vetrarbrautirnar séu að minnsta kosti tífalt fleiri en áður hefur verið talið.
Þegar Hubble-geimsjónaukinn var látinn stara á agnarlítið svæði á næturhimninum sem leit út fyrir að vera galtómt yfir tíu daga tímabil á 10. áratug síðustu aldar fann hann hátt í 10.000 vetrarbrautir. Út frá athugun sjónaukans áætluðu menn að í alheiminum væru um 100 milljarðar vetrarbrauta, að því er kemur fram í frétt á Stjörnufræðivefnum.
Nú hafa vísindamenn farið yfir gögn Hubble og fleiri sjónauka og niðurstaða þeirra er að fjöldinn hafi verið stórlega vanmetinn. Ástæðan er sú að hraði ljóssins og aldur alheimsins hafa þau áhrif að aðeins hluti alheimsins sést frá jörðinni. Grein um rannsóknina birtist í tímaritinu Astrophysical Journal.
Mælingar og líkön af vetrarbrautum á mismunandi tímaskeiðum í sögu alheimsins benda til þess að 90% af öllum vetrarbrautum í hinum sýnilega alheimi séu of daufar og langt í burtu til þess að við getum komið auga á þær, enn sem komið er.
Í gögnunum er rýnt meira en 13 milljarða ára aftur í tímann. Þau sýna að vetrarbrautir hafa ekki dreifst jafnt í sögu alheimsins. Þegar alheimurinn var mun yngri en í dag, örfáir milljarðar ára, voru tíu sinnum fleiri vetrarbrautir en í dag. Flestar voru litlar og daufar eða á stærð við fylgivetrarbrautir Vetrarbrautarinnar.
Niðurstöðurnar sýna jafnframt að vetrarbrautum fer fækkandi þegar á líður vegna samruna vetrarbrauta.