Veðurathuganir í Hvassahrauni að hefjast

Flugvélar Icelandair.
Flugvélar Icelandair. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Veðurfarsathuganir við Hvassahraun á vegum Icelandair Group munu hefjast á næstunni þegar veðurskilyrði henta, samkvæmt tilkynningu frá Icelandair.

Frétt mbl.is: Óábyrgt að kanna ekki möguleikann

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að lengi hafi verið talað um möguleikann á flugvelli í Hvassahrauni og því ágætt að komast að niðurstöðu í málinu. „Núna skapast aðstæður í veðri og öðru slíku til að framkvæma þetta,“ segir hann. 

Athuganirnar eru gerðar í framhaldi af starfi Rögnunefndarinnar svokölluðu sem lagði til í lokaskýrslu sinni að „Flugvallarskilyrði í Hvassahrauni verði fullkönnuð með nauðsynlegum rannsóknum.“.

Samkvæmt tilkynningu Icelandair mun fyrirtækið annast veðurfarsrannsóknir á svæðinu og mun til þess nýta tækjakost félagsins.

„Flugprófanirnar fara þannig fram að flugvélum frá Icelandair, sem ekki eru í áætlunarflugi, verður flogið eftir þeim aðflugsferlum sem eru fyrirséðir á nýju mögulegu flugvallarstæði. Tækjabúnaður um borð í vélunum mun nema og skrá mismunandi veðuraðstæður á svæðinu,“ segir í tilkynningunni.

Gert er ráð fyrir að prófanirnar standi yfir með hléum næstu vikur og mánuði og tekur þá við úrvinnsla úr rannsóknarvinnunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert