Hyllir undir lok „hallærisins“

Jörðin á vetrarsólstöðumínútunni 10:44 að morgni 21. desember 2016.
Jörðin á vetrarsólstöðumínútunni 10:44 að morgni 21. desember 2016. Mynd/Stjörnufræðivefurinn

Íbúar á norðurslóðum sem þrauka nú í gegnum svartasta skammdegið geta þakkað möndulhalla jarðar fyrir að að hýrast í myrkri nær allan sólahringinn. Nú hyllir hins vegar undir lok hallærisins því vetrarsólstöður voru í morgun og sólin fer að staldra lengur við á daginn á norðurhvelinu.

Í kringum vetrarsólstöður er sól á lofti í Reykjavík í aðeins rúmar fjórar klukkustundir og á Akureyri er í tæplega þrjár stundir. Ástæðan fyrir árstíðunum er sú að ásinn sem jörðin snýst um hallar miðað við brautina sem hún ferðast eftir í kringum sólina. Þessi möndulhalli jarðar er 23,5° en snúningsásinn bendir nú um stundir alltaf á sama punktinn í geimnum.

Frétt Mbl.is: Sólin „stendur í stað klukkan 10:44“

Þessi halli veldur því að þegar jörðin ferðast á braut um sólina halla hvel jarðarinnar annað hvort að eða frá sólinni. Þegar norðurhvelið hallar frá sólinni eins og nú er vetur en á sama tíma hallar suðurhvelið að sólinni og þar er þá sumar.

Halli norðurhvelsins frá sólinni náði hámarki sínu kl. 10:44 í morgun og var sólin þá lægst á lofti. Sú stund er það sem við nefnum vetrarsólstöður. Nú tekur daginn því að lengja aftur á norðurhveli en styttast á suðurhvelinu.

Sólarupprásinni og sólsetrinu seinkar í fyrstu

Öfugt við það sem halda mætti verða sólarupprás og sólsetur seinna á ferðinni nú fyrst eftir vetrarsólstöðurnar eins og útskýrt er í færslu á Facebook-síðu Stjörnufræðivefsins. Dagurinn lengist meira síðdegis en árdegis. Um jólin rís sólin mínútu seinna en á vetrarsólstöðum. Ástæðan er sú að hádegið — tíminn milli þess að sólin er í hásuðri — færist til, því sólarhringarnir eru mislangir miðað við klukkur sem eru nákvæmlega 24 stundir.

Ástæðan er sporöskjulaga braut jarðar um sólina og möndulhallinn sem valda því að sólin færist mishratt yfir himinninn. Við vetrarsólstöður er jörðin nálægt því að vera næst sólu. Þá ferðast hún örlítið hraðar um sólina en í lok júní þegar hún er fjærst sólinni.

Flesta daga verður hádegi því ekki á sama tíma dagsins. Í kringum sólstöður er hádegi nokkrum mínútum fyrr en daginn á undan. Þann 21. desember er hádegi í Reykjavík kl. 13:26 en klukkan 13:42 í febrúar. Að meðaltali er hádegi í Reykjavík kl. 13:28 en hálftíma fyrr á Austurlandi. Seinkun á hádeginu veldur því að sólarupprás og sólsetur verða seinna fyrst eftir að daginn fer að lengja.

Grein um árstíðirnar á Stjörnufræðivefnum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka