Blettatígur á hraðri leið til útrýmingar

Blettatígurinn er fótfráasta landdýrið.
Blettatígurinn er fótfráasta landdýrið. Af Wikipedia

Aðeins rúmlega sjö þúsund villtir blettatígrar eru nú eftir á jörðinni samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar. Dýrin eru sögð í hættu vegna þess að þau fara langt út fyrir verndarsvæði og lenda í árekstrum við menn. Höfundar rannsóknarinnar vilja að blettatígurinn verði settur á lista yfir dýr í útrýmingarhættu.

Meira en helmingur blettatígra heimsins tilheyrir einum stofni á svæði sem nær yfir landamæri sex ríkja í sunnanverðri Afríku. Blettatígrinum hefur nánast verið útrýmt í Asíu en talið er að um fimmtíu dýr séu eftir í Íran.

Í Afríku hefur blettatígrum fækkað hratt. Þannig hefur þeim fækkað úr 1.200 í aðeins 170 í Simbabve á sextán árum. Helsta ástæðan er sögð miklar breytingar á eignarhaldi á jörðum, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Blettatígurinn, sem er hraðskreiðasta landdýr jarðar, ferðast vítt og breitt og leitar langt út fyrir skilgreind verndarsvæði. Talið er að 77% búsvæða blettatígursins sé utan slíkra garða og friðlands. Þar er þrengt að honum með aukinni landnýtingu og veiða manna á bráð hans.

Sarah Durant frá Dýrafræðifélaginu í London sem er aðalhöfundur rannsóknarinnar segir að erfitt hafi verið að safna gögnum um blettatígurinn vegna þess hversu lítið hann lætur fyrir sér fara.

„Niðurstöður okkar sýna að það mikla landrými sem blettatígurinn þarf ásamt fjölda flókinna ógna sem steðjar að villidýrum þýðir að honum er líklega mun hættar við útrýmingu en áður var talið,“ segir hún.

Töluverð eftirspurn er eftir blettatígurshvolpum í löndum við Persaflóa sem fluttir eru ólöglega frá Afríku. Seljast hvolparnir á allt að tíu þúsund dollara hver á svörtum markaði. Áætlað er að um 1.200 blettatígurshvolpar hafi verið fluttir frá Afríku síðustu tíu árin. Af þeim hafi 85% drepist á leiðinni.

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert