Fréttir um hlé á hnattrænni hlýnun á árunum 1998 til 2014 voru rangar, samkvæmt niðurstöðum bresk-bandarískrar rannsóknar sem birtar voru í dag. Þykja þær staðfesta niðurstöður fyrri rannsóknar, sem þó hefur verið nokkuð umdeild.
Vísindamenn við Kaliforníu-háskólann í Berkeley og við York-háskólann í Englandi unnu saman að rannsókninni til að sannreyna niðurstöður Bandarísku haf- og loftslagsstofnunarinnar (NOAA), sem birtar voru árið 2015.
Rannsókn stofnunarinnar hafði sýnt að baujur, sem nú eru notaðar til að mæla sjávarhita, sýna gjarnan lægri hitastigstölur en í gamla kerfinu, þegar skip voru notuð til að mæla hitann.
Ályktuðu vísindamenn við stofnunina að þessi breyting hefði í raun falið hluta þeirrar hlýnunar sem raunverulega átti sér stað á þessum árum, 1998 til 2014.
Frétt mbl.is: Ekki hefur hægt á hlýnun
Einhverjir vísindamenn hafa þó verið ósáttir við þá niðurstöðu og hafa fullyrt að í raun hafi þarna átt sér stað nokkurs konar pása eða rof á hnattrænni hlýnun. Rannsóknin hefur þá einnig verið gagnrýnd af þeim sem telja hnattræna hlýnun vera eintóma blekkingu.
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings, undir forystu repúblikana, hefur meira að segja krafist þess að vísindamenn stofnunarinnar sýni löggjafarþinginu tölvupóstsamskipti sín um rannsóknina.
Stofnunin samþykkti að útvega gögn og svara vísindalegum spurningum, en neitaði að afhenda tölvupóstana. Lýstu margir í vísindasamfélaginu yfir stuðningi við þá ákvörðun.
Frétt mbl.is: Vísindanefnd sökuð um nornaveiðar
Eins og áður sagði staðfesta niðurstöður nýju rannsóknarinnar það sem NOAA hafði áður gefið út, að ekkert rof varð á hlýnuninni.
„Niðurstöður okkar þýða í raun að NOAA hafði rétt fyrir sér, að þau voru ekki að skálda þetta upp,“ segir Zeke Hausfather, aðalhöfundur rannsóknarinnar.
„Við efuðumst í upphafi um niðurstöður NOAA, því þær sýndu hraðari hlýnun en Veðurstofa Bretlands hafði áður gefið til kynna,“ segir þá Kevin Cowtan við York-háskóla.
„Svo við ákváðum að sannreyna þetta sjálf, með öðruvísi aðferðum og öðrum gögnum. Nú teljum við að þau hafi haft rétt fyrir sér og ný gögn frá Veðurstofu Japans staðfesta það sömuleiðis.“