2016 var heitasta ár frá því að mælingar hófust, samkvæmt gögnum bandarísku geimvísindastofnunarinnar og bresku veðurstofunnar. 0,07 stigum munaði á hitanum 2016 og 2015.
Að sögn vísindamanna átti veðurfyrirbærið El Niño hlut að máli en aðalsökudólgurinn var losun CO2 af mannavöldum.
Þessar lokaniðurstöður koma ekki á óvart þar sem svo hlýtt var fyrri hluta árs að vísindamenn voru þegar í maí farnir að spá því að nýtt met yrði sett.
Þegar talað er um upphaf mælinga er miðað við árið 1880.
Aðrir þættir sem höfðu áhrif á hitastig árið 2016 voru m.a. óvenjuleg hlýindi á norðurslóðum.
Samkvæmt veðurstofunni bresku lagði El Niño 0,2 stig til hins árlega meðaltals 2016. Rannsakendur segja hins vegar að að þessu frádregnu hafi árin 2015 og 2016 engu að síður verið þau heitustu hingað til.
Þetta þýði að hlýnunin sé að mestu tilkomin vegna hnattrænnar hlýnunar og gróðurhúsaáhrifanna.
Ítarlega frétt um málið má finna hjá BBC.