Tugir stórra fyrirtækja á borð við Apple, Facebook, Microsoft, Google og Twitter hafa sent frá sér sameiginlega lögfræðilega álitsgerð þar sem ferðabanni Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta, er mótmælt.
Álitsgerðin var lögð fram hjá bandarískum áfrýjunardómstóli til stuðnings við dómsmál sem hefur verið höfðað gegn banninu en þar var borgurum sjö ríkja þar sem múslímar eru í meirihluta bannað að koma til landsins.
Í álitsgerðinni kemur fram að bannið „skaði bandarísk viðskipti, nýsköpun og vöxt umtalsvert“.
Yfirmenn þónokkurra stórra fyrirtækja í Silicon Valley höfðu áður mótmælt banni Trumps.
Alríkisdómari í borginni Seattle fyrirskipaði á föstudag tímabundið lögbann á ákvörðun forsetans. Ríkisstjórn Trumps áfrýjaði lögbanninu.
Alls sendu 97 tölvu- og tæknifyrirtæki frá sér álitsgerðina. Ásamt ofantöldum fyrirtækjum voru AirBnB, Dropbox, Ebay, Intel, Kickstartert, Linkedln og Netflix þar á meðal.