Snjallsíminn ekki góð barnfóstra

Dr. Catherine Steiner-Adair segir snjallsíma hafa örvandi áhrif og því …
Dr. Catherine Steiner-Adair segir snjallsíma hafa örvandi áhrif og því sé ekki rétt að láta börn fá þá við þau tilefni sem börnin þurfa að róa sig niður. Ljósmynd/Catherine Steiner-Adair

Töluvert er um að foreldrar nýti spjaldtölvur og snjallsíma sem barnfóstru til að hafa ofan af fyrir börnum eða róa þau niður og jafnvel dæmi um að börnum sé réttur snjallsími til að hafa ofan af fyrir þeim á meðan skipt er um bleyju. 

Bandaríski sálfræðingurinn Catherine Steiner-Adair, telur slíka skjánotkun hins vegar ekki af hinu góða. Steiner-Adair var meðal fyrirlesara á ráðstefnunni Börn, skjátími og þráðlaus örbylgjugeislun sem Félag foreldra leikskólabarna stóð fyrir á Hótel Natura í gær. Bók hennar „The Big Disconnect: Protecting Childhood and Family Relationships in the Digital Age“ hefur hlotið mikið lof, en Steiner-Adair sem flutti fyrirlestur sinn í gegnum Skype segir mikla skjánotkun þeirra kynslóða barna sem nú eru að vaxa úr grasi hindra þroska þeirra að mörgu leyti.

„Eitt af því mikilvægasta sem við kennum börnum okkar og sem við þurfum að halda áfram að kenna þeim í gegnum alla æskuna er hæfnin til að takast á við vonbrigði, að hugga sig sjálf og róa sig niður,“ segir Steiner-Adair. Þetta felur að hennar sögn m.a. í sér að syngja með börnum og spjalla við þau til að hafa ofan af fyrir þeim í röðinni við kassann í búðinni eða á langri ökuferð. Hún segir þessi samskipti vera mikilvægan hluta af sambandi foreldris og barns, enda eigi börn erfitt með að læra í skóla ef þau hafa ekki lært að þróa með sér þolinmæði og bíða þess að röðin komi að þeim.

Fá tæki sem örva í stað þess að læra að hugga sig sjálf

„Það sem við sjáum nú hjá þessari kynslóð barna, sem fá snjallsíma eða spjaldtölvu í hendur til að hjálpa þeim að róa sig niður við hvert tækifæri, er að í stað þess að þau læri að hugga sig sjálf eða róa sig niður fá þau í hendurnar tæki sem örvar þau og börn elska allt sem örvar þau.“ Hún nefnir sem dæmi þegar börnum er réttur síminn á veitingastað, í röðinni við kassann og í bílferðinni. „Fyrir vikið læra þau ekki að hafa stjórn á sér. Þau fara sömuleiðis á mis við tengslin sem myndast milli foreldris og barns þegar verið er að syngja fyrir þau, lesa, tala, eða leika við þau í aðstæðum þar sem þau eru óróleg.“

Steiner-Adair kveðst vissulega skilja freistinguna sem felst í því að rétta barninu snjalltækið, því viðbrögð barnanna séu jafnan þau að þagna samstundis. Til lengri tíma sé slíkt hins vegar ekki gott fyrir barnið, auk þess sem of mik­il skjánotk­un get­i hindrað börn í að öðlast full­an þroska.

Það getur verið freistandi að láta barnið fá símann þegar …
Það getur verið freistandi að láta barnið fá símann þegar beðið er í langri röð við kassann í stórmarkaðinum. Heppilegra væri þó að nota tímann til að syngja með eða tala við barnið og þróa þannig með því þolinmæði. AFP

Breytir sambandi foreldris og barns 

„Þessi stafrænu tæki eru á eina höndina dásamleg af því að þau gera okkur kleift að vera í sambandi við fólkið okkar allan sólarhringinn. En á sama tíma eru þessi tæki virkilega að reyna á samband okkar við börn okkar og breyta þeim,“ segir Steiner-Adair.

Ekki á til að mynda að leyfa börnum tveggja ára og yngri að nota snjalltæki til annars en að vera í myndsímasambandi við fjölskylduna að hennar mati. „Það er þó líka í lagi að lesa rafbók með börnum á þessum aldri, en það er betra að nota venjulega bók.“

Fyrir börn á aldrinum 3-5 ára má finna mörg góð myndbönd um dýraríkið og jafnvel skemmtilega leiki sem börnin geta spilað. Foreldrar þurfa þó að vera mjög meðvitaðir um að velja ekki ávanabindandi leiki á borð við Candy Crush eða Ninja Fruit Fly sem eru mjög örvandi fyrir börn.

Fylgist vel með skjánotkun barna sinna

Steiner-Adair mælir með að foreldrar fylgist vel með skjánotkun barna sinna. „Ef börnin eiga erfitt með að hætta í ipadinum eða símanum er það merki um að foreldrar eigi að draga úr tímanum sem þau nota í þessi tæki. Byrji börnin síðan að kvarta eða væla og vilja vera við skjáinn frekar en að gera nokkuð annað er ástæða til að hafa virkilega varann á,“ segir hún.

Fyrir 4-5 ára börn segir hún síðan hægt að finna tölvuleiki sem reyna á vitsmuni barnsins og fræðandi myndbönd, t.a.m. um líf barna í öðrum löndum.

Foreldrar þurfi hins vegar alltaf að vera meðvitaðir um að barnið sinni líka öðrum hlutum. „Er barnið búið að fara út að leika sér í dag? Er það búið að lesa, eða er ég búin að lesa með barninu? Er barnið búið að leika sér með öðrum börnum? Hjálpa til heima við? Sinna gæludýrinu eða gera hvað það annað sem við viljum að börnin okkar geri á hverjum degi?“ spyr Steiner-Adair og mælir með að foreldrar spyrji sig alltaf slíkra spurninga áður en samþykkt er að lengja skjátímann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert