Fundu elstu steingervinga í heimi

Uppgötvunin er besta vísbending sem hingað til hefur fundist um …
Uppgötvunin er besta vísbending sem hingað til hefur fundist um að lífverur gætu hafa þrifist á mars. Mynd/NASA

Nýir steingervingar hafa fundist í Kanada en um er að ræða elstu steingervinga sem fundist hafa á jörðinni. Steingervingarnir sýna að lífverur þrifust á jörðinni fyrir 4,2 milljörðum ára en það er mörg hundruð milljónum ára fyrr en áður var talið.

Lífverurnar munu hafa lifað í um 60°C heitum gígum í þeim sjó sem umlukti plánetuna á þessum tíma. Uppgötvunin bendir til þess að álíka lífverur gætu mögulega hafa þróast á Mars en á þeim tíma var enn þá haf og andrúmsloft á plánetunni.

Vísindamennirnir sem fundu steingervingana telja að besti möguleikinn á að finna líf í geimnum sé að leita að álíka steingervingum á Mars. 

„Mars og jörðin voru mjög svipaðir staðir, svo við gætum átt von á að finna líf á báðum plánetum á þessum tíma,“ segir Matthew Doss, sem stýrði rannsókninni.

„Við vitum að líf náði fótfestu og þróaðist hratt á jörðinni svo ef það var líf í jarðhitagígum fyrir 4,2 milljörðum ára, þegar fljótandi vatn var á yfirborði beggja pláneta, megum við búast við því að eitthvað líf gæti þróast á báðum stöðum.“

„Ef við tökum sýni frá mars í framtíðinni og skoðum svipað berg en finnum ekki líf þá bendir það sannarlega til þess að jörðin hafi verið sérstök undantekning og að líf hafi bara orðið til á jörðinni.“

Rannsóknin var meðal annars kostuð af Geimferðastofnun bandaríkjanna (NASA) en elstu steingervingarnir sem fundist höfðu á undan þessum voru um 3,4 milljarða ára gamlir.

Frétt The Telegraph

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert